145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Fyrst hér var farið með ljóð langar mig að fara með ljóð sem Andri Snær Magnason setti inn á vefinn sinn árið 2009 í tilefni af degi íslenskrar tungu. Það heitir Geisladrif.

Stöldrum aðeins við: Geisladrif

— er það ekki fallegt orð?

Hefði amma verið spurð væri geisladrif

sólstafir og skuggaleikur

janúarbirtan yfir Keili

guð og englar í geisladrifi

brátt úreldast geisladrifin

þá verður orðið frjálst

geisladrif

,,ég elska þig og þegar ég hugsa til þín

fyllist hugur minn geisladrifi“

Mér fannst þetta ljóð passa mjög vel við þá ólíku heima sem hér hafa birst í dag.

Við skulum hafa í huga að í fróðleiksþorsta sínum ná krakkarnir okkar sér í upplýsingar um hvernig á að gera hlutina á Youtube. Sonur minn opnaði nýverið tölvuna sína og fann út hvað væri að með því að fara á Youtube og finna þar leiðbeiningar. Síðan fór hann aftur á Youtube til að læra hvernig hann ætti að setja tölvuna saman.

Við erum ekki með neitt námsefni sem höfðar til þessara ungu drengja. Þeir tala langflestir saman á ensku og ná sér í upplýsingar og fróðleik á ensku. Við þurfum að gefa í áður en það fer fyrir tungunni okkar eins og geisladrifinu, að hún verði úrelt og enginn kunni hana almennilega af því að enskan verður móðurmálið.

Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að gefa í og koma með einhverjar alvörulausnir þar sem aðalnámskrá verður endurskoðuð. Ég óska eftir því að það verði sett upp svokölluð „hatters space“ í skólanum þar sem krakkar læra að búta í sundur tölvur í staðinn fyrir eingöngu að prjóna og smíða.