145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir að hefja þessa umræðu um íslenska tungu í stafrænum heimi og þær ógnir sem steðja að þeim veruleika sem við búum við. Svo vil ég jafnframt þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir innlegg hans og umfjöllun um hvert verkefnið er í raun og veru.

Það er tilhlýðilegt, virðulegi forseti, að við tökum þessa umræðu hér á degi íslenskrar tungu. Dagur sem hefur verið haldinn frá árinu 1996 og það var vel við hæfi að ákveða að sá dagur skyldi vera á fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Sem skáldi og rithöfundi var honum íslenskan auðvitað hugleikin og ekki síður hlutverk íslenskrar tungu í vitund þjóðar.

Það er viðvarandi verkefni, baráttan fyrir íslenskri tungu, það hefur ekki breyst. En tæknibyltingin sem við stöndum frammi fyrir og stóraukin notkun rafrænna miðla breytir að einhverju marki áherslum og viðfangi, eins og að tryggja íslensku í notendaviðmóti hugbúnaðar. Sú barátta að verja íslenska tungu og viðhalda vitund þjóðarinnar um gildi hennar er, og ég legg áherslu á það, viðvarandi verkefni. Í því samhengi er mikilvægt að verja og varðveita íslenskt mál og málfar. Með stóraukinni notkun slíkra miðla er það nýtt verkefni að takast á við í öllu tæknimáli og tækniútfærslu í hugbúnaði og kennsluefni á rafrænu formi.

Vissulega eru breytingarnar mjög hraðar og byltingarkenndar og mögulega erum við sein til viðbragða. (Forseti hringir.) Það er ekki annað að skynja á þessari umræðu en að viðleitnin og viljinn sé til staðar að takast á við að mæta kröfum hins stafræna heims og þeim ólíkindamöguleikum sem með ævintýralegum hraði koma til okkar. Vonandi berum við gæfu til þess.