145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla hvorki að ræða um íslenska tungu í stafrænum heimi né afmælisbarn dagsins sem þessi dagur er kenndur við heldur annað afmælisbarn þessa dags, Jón Sveinsson, Nonna, sem fæddist einmitt 16. nóvember 1857, nákvæmlega 50 árum á eftir Jónasi Hallgrímssyni á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem er ekki fjarri Öxnadal þar sem Jónas fæddist.

Saga Nonna er mjög merkileg vegna þess að hann flutti tólf ára gamall til Frakklands með viðkomu í Danmörku. Það má segja að hann hafi verið að flýja fátæktina á Íslandi. Hann kenndi í Danmörku um áratugaskeið og skrifaði fyrstu bókina sína á dönsku. Hann talaði reiprennandi frönsku því hann lærði í jesúítaskóla í Frakklandi. Hann tók prestvígslu í Bretlandi og talaði ágætis ensku þótt hann sjálfur væri ekkert allt of ánægður með hana. Hann skrifaði bækur sínar á þýsku. Þá sem hann hafði skrifað á dönsku skrifaði hann aftur yfir á þýsku og í rauninni lagðist hann í gagngerar aðgerðir við það, kominn vel yfir fimmtugt, að læra þýsku það vel að hann gæti gefið út bækurnar sínar á þýsku.

Á sama tíma skrifaði Nonni og talaði óaðfinnanlega íslensku. Þeir sem hittu hann segja að hann hafi talað hægt og vandað sig mjög enda þótti honum mjög vænt um móðurmálið.

Nonni hefði auðvitað ekki getað sagt sögur frá heimalandi sínu og selt bækur í bílförmum nema af því að hann var mikill málamaður. Það er ekki sjálfgefið að fólk hafi gott vald á mörgum tungumálum, jafnvel ekki einu sinni einu tungumáli. Við erum hér að berjast við að halda lífi í íslenskri tungu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur og mikilvægt að við séum meðvituð um að það er áskorun að halda lífi í tungumáli sem einungis 320 þúsund manns tala. Við þurfum að hafa fyrir því.

En ég hef líka áhyggjur af börnum sem eins og Nonni flytja til annarra landa og þurfa að læra nýtt og framandi tungumál (Forseti hringir.) eins og íslensku því ef þau hafa ekki jafn góðan grunn og Nonni bíður þeirra ekki eins björt framtíð og annars væri.