145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og öllum þeim sem hafa komið að umræðunni.

Íslensk tunga í hinum stafræna heimi er auðvitað mikilvæg. Mikilvægast af öllu er að við svörum þeirri eftirspurn sem er eftir barnaefni, tölvuleikjum á íslensku sem aðaltungumáli. Það er eitthvað sem ég fagna að heyra að hæstv. menntamálaráðherra virðist vonandi vilja setja fjármuni í á næstu árum og áratugum.

Það er eitt sem mér þykir þó einkenna umræðuna — nú er ég ein af þeim börnum sem ólust upp við þessa framandi stafrænu tækni og er tvítyngd ef ekki þrítyngd — og það er að við megum ekki vera hrædd við tungumál. Við megum ekki halda að menning okkar muni þurrkast út ef íslenskan verður verri eða ef börnin okkar verða allt í einu tvítyngd. Það er mjög eðlilegt að vera tvítyngdur. Það þarf að styðja börn sem eru tvítyngd í íslenskum skólum, til dæmis með því að gera enskukennslu betri svo þau hafi jafn gott vald á íslensku og ensku einfaldlega til að koma til móts við þau þar sem þetta er ekki alltaf spurning um að varðveita íslenskuna eins og hún er. Tungumál eru endalaust í mótun og við mótum þau hverju sinni hvenær sem er. En það er náttúrlega gott að halda íslenskunni við. Þetta er fallegt tungumál, gamalt tungumál og gefur okkur einstaka innsýn inn í mörg mismunandi tungumál og gamla íslenska sögu, sem eru alger forréttindi. Hins vegar þurfum við ekki að vera hrædd því að önnur tungumál opna aðra menningarheima rétt eins og sá íslenski opnar hinn íslenska.

(Forseti (EKG): Forseti vill ítreka að það er bilun í klukku í ræðustól þannig að forseti verður eftir föngum að fylgjast með tímanum og láta hv. þingmenn sem eru að flytja ræðu vita.)