145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

sjálfkeyrandi bílar.

174. mál
[16:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að hafa sjálfdæmi um tímatökuna.

Ég lagði fram fyrir allnokkru síðan fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um sjálfkeyrandi bíla, annars vegar þá spurningu hvort það sé eitthvað í lagaumhverfi okkar sem komi í veg fyrir það að þeir verði innleiddir, hvort að við þurfum að ráðast í einhverjar lagabreytingar til þess að slíkir bílar verði löglegir hér á götunum, og í annan stað hvort einhver stefnumörkun hafi farið fram á vegum ráðuneytisins um sjálfkeyrandi bíla.

Það hefur verið býsna hröð þróun í þessu efni á undanförnum árum. Það var trúlega í hittiðfyrra sem fyrstu 100 bílarnir komu á almennan markað í þremur ríkjum Bandaríkjanna og hafa keyrt þar, bílar frá Google síðan. Það eru stór verkefni í gangi, m.a. samstarf Volvo við Gautaborg, tilraunaverkefni svipað að umfangi og síðan auðvitað mjög ör þróun í sjálfkeyrandi eiginleikum bíla sem fólk keyrir þó enn. Það er meðal annars þar komið að bílaframleiðendur eru farnir að selja með hefðbundnum bifreiðum hugbúnað sem kallaður er „autopilot“ eða í raun og veru sjálfstýring. Ýmsir hafa hlaðið slíkum hugbúnaði niður í bifreiðar sem hér eru á götum og ekið með slíka sjálfstýringu á milli sveitarfélaga á Íslandi og eftir okkar vegum.

Það er því engum blöðum um það að fletta að þessi tækni er ekki lengur bara eitthvað í framtíðinni heldur er hún einfaldlega orðin veruleiki, þó í takmörkuðum mæli sé enn, á götum úti í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum.

Það er þess vegna sérstaklega mikilvægt að við höfum allan lagaramma sem í kringum þetta er mjög á hreinu og að við vinnum að stefnumörkun í þessum efnum. Fyrir mitt leyti hef ég ríka sannfæringu fyrir því að þessi þróun verði miklu örari en menn hafa áður talið og að í henni felist miklar samfélagsbreytingar og stórkostleg tækifæri, m.a. í breytingum á skilunum milli einkabíla og almenningssamgangna, möguleikum á samnýtingu bifreiða, möguleikum á því að draga úr þeirri gríðarlegu landnotkun sem nú fer undir bíla á bílastæðum, möguleikum í breyttum búsetuháttum, auknu vægi úthverfa í borgum og nærliggjandi svæða, breytingum í samsetningu verslunar, breytingum í afhendingu á (Forseti hringir.) vörum og í raun og veru áhrifum á flesta þætti daglegs lífs.