145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

sjálfkeyrandi bílar.

174. mál
[16:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vekur hér athygli á mjög merkilegu fyrirbæri sem eru sjálfkeyrandi bílar. Ég er sammála hv. þingmanni um að það verði sérstaklega fróðlegt að fylgjast með þróun þeirra á komandi árum. Eflaust er það svo að þróunin er töluvert hröð og maður hefur séð það undanfarin missiri að þetta færist stöðugt nær. Það liggur við að manni finnist maður vera staddur í vísindaskáldsögum barnæskunnar þegar hugsað er til þess að innan tíðar gæti það orðið raunhæfur möguleiki að sjálfkeyrandi bílar sæjust á götum borga og manni kemur til hugar að þeir gætu eflaust breytt ýmsu gagnvart þeim sem keyra ekki hefðbundna bíla.

En mig langar að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir að mér varðandi þetta. Fyrri spurningin er sú hvort lagalegar hindranir séu í vegi fyrir því að hægt sé að notast við sjálfkeyrandi bíla hér á landi núna.

Þá er því til að svara að íslensk löggjöf leyfir ekki akstur sjálfkeyrandi bíla í umferðinni. Eftir því sem bílar verða sjálfvirkari verða álitamál og hindranir núgildandi löggjafar, sérstaklega umferðarlaga nr. 50/1987, víðtækari. Ákvæði þeirra gerir ráð fyrir því að ökumaður með tilskilin ökuréttindi hverju sinni stjórni og beri ábyrgð á akstri ökutækis. Samkvæmt lögunum skal ökumaður vera líkamlega og andlega fær um að stjórna ökutæki því sem hann fer með auk þess sem ökumaður má ekki hafa neytt áfengis eða fíkniefna.

Samkvæmt lögunum er það skráður eigandi sem þarf að bæta tjón sem hlýst af notkun bifreiðar enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækjum eða ógætni ökumanns. Hér verður þó að hafa í huga lögbundna ábyrgðartryggingu sem er ætlað að bæta fjárhagslegan skaða sem hlýst af notkun ökutækis og eigandi og/eða ökumaður þess er gerður ábyrgur fyrir samkvæmt umferðarlögum.

Vegna þessa og þessara lagalegu hindrana þá vakna nokkrar spurningar sem er ástæða til að velta upp hér. Í fyrsta lagi: Þyrfti ef til vill að endurskilgreina réttarstöðu ökumanns með tilliti til sjálfkeyrandi bíla? Er það svo? Í öðru lagi: Á að gera kröfu um að alltaf sé til staðar ökumaður sem uppfylli skilyrði laganna, sem beri ábyrgð og skuli grípa inn í stjórn bifreiðar ef á þarf að halda? Eða þarf svo ekki að vera? Þá er ég að tala um ökumann sem uppfyllir almenn skilyrði þess að vera ökumaður. Í þriðja lagi: Þyrfti ef til vill að skýra ábyrgð framleiðanda ökutækis í umferðarlögum vegna tjóns, t.d. vegna sjálfkeyrandi bíla? Má ætla að eigendur og ökumenn þeirra þurfi í meira mæli að treysta á búnað framleiðenda sem þeir hafa ekki möguleika sjálfir til að hafa áhrif á? Hvaða áhrif gæti það hugsanlega haft komi til slysa?

Síðan eins og hv. þingmaður fór yfir og ástæða er til að ítreka er alls kyns búnaður nú þegar kominn í bifreiðar sem er til þess fallinn að auðvelda mönnum akstur bílsins.

Síðari spurningin frá hv. þingmanni er hvort farið hafi fram stefnumörkun á vegum ráðuneytisins vegna þessa. Svarið er að það hefur ekki verið gert, það hefur ekki farið fram sérstök stefnumörkun í þessum málefnum. Það ber þó að taka fram að við vinnslu samgönguáætlunar til 12 ára starfar starfshópur sem vinnur að útfærslu sviðsmyndar fyrir samgöngur framtíðarinnar. Þar á meðal er horft til þess hvaða hlutverki sjálfkeyrandi bílar gætu haft. Hópurinn kynnti drög að sviðsmyndum á samgönguþingi síðastliðið vor og þá komu sjálfkeyrandi bílar við sögu.

Þá vil ég líka upplýsa það hér að á vegum Sameinuðu þjóðanna er starfandi sérstök stofnun sem fjallar um búnað ökutækja og líka sjálfkeyrandi bíla. Starf stofnunarinnar er byggt á samningum sem bílaframleiðendur, ríki og fleiri aðilar eiga aðild að og hafa samþykkt. Á þeim vettvangi er gerð og búnaður ökutækja samþykktur með hliðsjón af umferðaröryggi, umhverfismálum og fleiru sem máli skiptir. Evrópusambandið tekur svo þessar ákvarðanir upp í eigin reglur eins og ástæða er til og við innleiðum þær svo að sjálfsögðu að því marki sem okkur ber skylda til á grundvelli EES-samningsins.

Ég vil geta þess að við veltum því töluvert fyrir okkur þegar við svörum þessum spurningum hvernig við ættum að þróa það áfram hvernig við fylgjumst með þessum málum. Við munum áfram fylgjast náið með þróun mála erlendis, þróun á lagaumhverfi og öðrum slíkum þáttum sem er forsenda fyrir því að hægt sé að keyra slíkar bifreiðar hér og í öðrum löndum. Það er nokkuð sem við Íslendingar munum líta til í framhaldi þegar við lítum til þróunar í samgöngumálum.