145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

öryggisreglur fyrir hópferðabíla og strætisvagna.

192. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á Íslandi hefur ástundun dreif- og fjarnáms úti á landi aukist til muna en með auknum möguleikum ungs fólks til að stunda nám óháð búsetu hefur um leið notkun þess á strætisvögnum til að komast í innilotur í þeim skólum sem dreif- og fjarnámið er kennt frá aukist til muna hjá yngri nemendum framhaldsskóla sem hefja nám áður en þeir hafa fengið bílpróf.

Einnig er ferðamannastraumurinn til landsins orðinn töluvert meiri og eru ferðamenn farnir að dreifast betur yfir allt árið. Notkun þeirra á sömu strætisvögnum hefur einnig aukist. Ef heldur áfram sem horfir mun notkunin verða enn þá meiri.

Þar sem aukin notkun mætir annarri má það aldrei vera öryggi farþega sem þarf undan að láta. Öryggi á alltaf að vera í fyrirrúmi. Við það hefur orðið vart að fólk sé látið standa í strætisvögnum lengri leiðir í skipulögðum ferðum til að hægt sé að koma fleiri farþegum í hverja ferð. Þetta á þá við í stærri vögnum sem fara þær ferðir og hafa líkt og strætisvagnar innan bæjar pláss fyrir standandi farþega. En þessar leiðir geta verið farnar við erfiðar aðstæður og þá eru þeir farþegar ekki í öryggisbeltum.

Önnur fyrirtæki sem fara skipulagðar ferðir um landið á því sem ekki flokkast til strætisvagna, sem sagt hópferðabílum, geta ekki farið sömu leið til að fjölga farþegum í ferðum. Því er mér spurn hvort á þessu fyrirkomulagi sé einhver munur, þ.e. á öryggisreglum sem gilda fyrir strætisvagna. Því vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvaða reglur það eru sem gilda um öryggisbelti í hópferðabílum og strætisvögnum, hver munurinn sé á öryggisreglum í skipulögðum ferðum um landið, t.d. frá Reykjavík til Akureyrar eða upp í Borgarnes, og ef munur er á hver rökin séu fyrir mismunandi reglum. Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra: Mega hópferðabílar eða strætisvagnar aka með standandi farþega styttri eða lengri vegalengdir í skipulögðum ferðum um landið?