145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

væntanleg íbúakosning í Reykjanesbæ.

266. mál
[16:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Stjórnendur Reykjanesbæjar eru að réttlæta það að þeir muni hugsanlega ekki taka mark á niðurstöðum íbúakosningarinnar vegna þess að búið hafi verið að ganga frá málum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og ekki sé hægt að hverfa frá þeim samningum sem búið sé að gera. Staðreyndin er hins vegar sú að það var ekki fyrr en snemma á þessu ári sem mat á umhverfisáhrifum kom fram þegar tvö heimsins stærstu kísilver eru komin niður á sama stað auk álvers innan við tveggja kílómetra frá íbúabyggð, grunnskóla og leikskóla. Þær upplýsingar komu ekki fyrr en núna á þessu ári og í kynningum kemur fram að það er ekki einu sinni til vindrós fyrir iðnaðarsvæðið við Helguvík heldur er stuðst við vindrós Keflavíkurflugvallar þegar mat á mengunaráhrifin er sett niður.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála hvort það séu ekki einhverjar varnir fyrir íbúa sveitarfélags þegar (Forseti hringir.) upplýsingar koma svona seint og eftir að búið er að ganga frá samningum, að sagt er.