145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

löggæsluáætlun samkvæmt þingsályktun nr. 49/140.

300. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef haft mikinn áhuga fyrir stöðu löggæslumála og reyndar málefnum sýslumanna einnig og að fylgja því eftir, sérstaklega eftir skiptingu umdæmanna. Fyrirspurn mín er eftirfylgni á stóru máli sem á að ná yfir tiltekinn tíma en það er vert að taka eitthvert stöðumat á því hvernig hefur gengið hingað til.

Við vorum með lögreglumenn í mótmælaaðgerðum um daginn sem birtust meðal annars í því að 84 aðilar buðu fram starfskrafta sína í auglýsingu í dagblaði. Þeir voru óánægðir með kjör sín, álag og annað sem starfinu fylgir. Ég vil inna ráðherra eftir því hvernig tekist hafi fram til þessa að framfylgja þeim hugmyndum sem birtust í skýrslu sem annars vegar kom fram árið 2013, minnir mig, og svo stöðumati sem þingmannanefndin skilaði af sér, m.a. um skiptingu viðbótarfjármagnsins sem kom í fyrra og svo aftur varanlegt núna. Áherslan átti að vera á það að fjölga almennum lögreglumönnum. Það átti að reyna að byrja á landsbyggðinni, auka lögreglueftirlitið, bæta nauðsynlegan búnað og allt það og mig langar að vita hvernig tekist hefur til. Mig minnir að það hafi átt að fjölga um 44 lögreglumenn. Ég er með minnisblað hérna, það var tilgreint hvar átti að bera niður. Ég hef áhuga á að vita hvort það hafi gengið eftir, þ.e. sú skipting eins og hún lá fyrir í því minnisblaði.

Það var líka talað um rannsóknardeildirnar og aðrar deildir, ekki bara á landsbyggðinni. Hefur það gengið eftir það sem af er þessu ári og þá í fyrra þegar þetta átti að vera fyrsta atriðið?

Í ljósi hins aukna ferðamannastraums kom fram líka hálendisaukningin, þá átti að bæta í þar, það átti að bæta umferðareftirlitið og bæta landamæravörsluna við Suðurnesin. Það átti að auka sýnileikann og mig langar til að spyrja ráðherra almennt hvernig hafi gengið. Ég hef líka heyrt að það hafi hreinlega gengið illa að manna bíla, að embættin hafi ekki tök á því þar sem það vanti hreinlega rekstrarfé inn í hinn almenna daglega rekstur. Hvernig hefur þetta gengið hjá okkur?