145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

löggæsluáætlun samkvæmt þingsályktun nr. 49/140.

300. mál
[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður snertir í ræðu sinni á fjöldamörgum atriðum sem er alveg ófært fyrir mig að svara á þeim stutta tíma sem hér er til reiðu. Ég held að það sé ástæða fyrir okkur að efna til ítarlegri umræðu um þau atriði sem hv. þingmaður spyr um þannig að þá væri hægt að undirbúa svör við því sem gögnuðust inn í umræðuna frekar en að við séum að tala mjög almennt í þessu máli í dag.

Spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín núna var fyrst og fremst um stöðu löggæsluáætlunarinnar. Þetta er svo stórt atriði. Ég hafði undirbúið mig fyrir að svara því með breiðari línum en er alveg reiðubúin að eiga orðastað við þingmanninn út af þeim atriðum sem hún nefndi þótt sum þeirra komi hér inn á svar mitt.

Vinnu við gerð löggæsluáætlunar á grundvelli ályktunar Alþingis miðar alveg ágætlega. Það er stefnt að því að löggæsluáætlun fyrir Ísland til fjögurra og tólf ára verði lögð fyrir Alþingi á vorþingi 2016 sem einn þáttur í fyrirhugaðri þingsályktunartillögu um réttaröryggisáætlun sem nú er unnið að á vegum innanríkisráðuneytisins og mun taka til allra fjögurra meginþátta réttarvörslukerfisins sem er lögreglan, ákæruvaldið, dómstólar og fullnusta refsinga. Ég held að þegar sú áætlun birtist fáum við góðan grundvöll til að hefja mjög góða umræðu um þessi mál í þinginu.

Nefndin sem skipuð var fulltrúum þeirra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi, Landssambands lögreglumanna, ríkislögreglustjóra auk tveggja fulltrúa innanríkisráðherra hefur það hlutverk samkvæmt þessari þingsályktun að gera löggæsluáætlun fyrir Ísland. Jafnframt er nefndinni ætlað að skilgreina öryggisstig hér á landi, þjónustustig lögreglu, mannaflaþörf og þörf lögreglunnar fyrir fjármagn. Í samræmi við þessa þingsályktun miðar gerð löggæsluáætlunarinnar að því að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Með þessu er stefnt að því að greiða fyrir upplýstri umræðu um störf lögreglu og efla kostnaðarvitund þingsins hvað varðar löggjöf um verkefni lögreglu og þar með koma faglegri aðkomu þingsins að þessum málaflokki í enn betra horf.

Nefndin tók til starfa í nóvember 2012. Í tillögunni var gert ráð fyrir því að löggæsluáætlun yrði lögð fram 2013 en það var nú ekki fyrr en síðla árs 2012 sem nefndin lauk störfum þannig að þetta hefur allt saman tekið sinn tíma. Nefndin ákvað að skila til ráðherra skýrslu um eflingu lögreglunnar sem ætlað var að verða leiðarljós um endanlega gerð þessarar löggæsluáætlunar. Við skýrslugerðina gekk nefndin út frá þeirri forsendu að tillögur um aðskilnað lögreglustjórnar frá embættum sýslumanna og fækkun umdæma í átta mundi ná fram að ganga á Alþingi og að Alþingi samþykkti verulega hækkun á fjárveitingum til lögreglunnar. Síðan hafa verið gerðar alls kyns breytingar á stjórnskipulagi lögreglu, aðskilnaður á milli sýslumannsembætta og lögreglustjórans, eins og hv. þingmaður og þingheimur þekkir, og ýmislegt sem við höfum reynt að gera til að bæta þennan mikilvæga málaflokk.

Eins og áður segir stendur yfir vinna á vegum innanríkisráðuneytisins um mótun áætlunar fyrir réttaröryggiskerfið í heild. Er nú auk löggæsluáætlunarinnar unnið að gerð ákæruvaldsáætlunar, dómstólaáætlunar og fullnustuáætlunar. Með þessum áætlunum er í fyrsta skipti unnið að heildstæðri áætlun um réttargæslukerfið og framtíðarskipan þess og fjárveitingar sem því tengjast og aðgerðir og langtímaáætlanir mótaðar fyrir kerfið og stofnanir þess. Það er mjög mikilvægt að þingmenn allra flokka skuli hafa komið að þessu og að þingið leggist á árarnar með okkur um það að koma þessum mikilvæga málaflokki inn í þessa góðu stefnumótunarvinnu.

Við mótun löggæsluáætlunarinnar hefur verið tekið mið af þessu verkefni í þeim tilgangi að tryggja samsvörun innan allra þessara áætlana. Er því miðað við að meginatriði löggæsluáætlunarinnar verði lögð til grundvallar við mótun réttaröryggisáætlunar í heild. Einnig verði tekið tillit til þeirra áhersluatriða sem fram komu í frumvarpi að lögum um opinber fjármál og ég hygg að sé núna komið til 2. umr. á Alþingi.

Í þessari löggæsluáætlun/réttaröryggisáætlun er leitast við að leggja gólfið. Síðan er stöðugt verkefni okkar að tryggja þá fjármuni sem þarf við löggæsluna. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir hér og við þekkjum, það er óskaplega mikil aukning í verkefnum lögreglunnar sem veldur henni verulega auknu álagi. Það er alveg augljóst að Alþingi verður að bregðast við því og við verðum sameiginlega (Forseti hringir.) að tryggja að löggæslumál séu viðunandi í landinu.