145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

löggæsluáætlun samkvæmt þingsályktun nr. 49/140.

300. mál
[17:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Í þessari réttarvörsluáætlun og síðan löggæsluáætluninni sem undir henni er ásamt öðrum áætlunum er þess freistað að menn átti sig á þörfinni til lengri tíma á þessu sviði, bæði hvernig skipulagi verði háttað og þróun málaflokksins er, til að geta betur undirbyggt fjárþörfina, hvernig eigi að nýta það fjármagn sem fæst í þennan málaflokk og eftir atvikum fundið út hvar kreppir að.

Ég held að það geti hjálpað okkur dálítið mikið til að átta okkur á því hvernig hlutirnir eiga að gerast á næstu árum. Það rímar kannski ágætlega við þá stefnumörkun sem er líka að finna í frumvarpi til laga um opinber fjármál að við séum ekki stöðugt í því í tengslum við fjárlagagerð að líta á viðamikla málaflokka sem eru jafnvel grundvöllur í rekstri ríkisins nokkra mánuði fram í tímann í spreng um það hvernig eigi að bjarga einstökum verkefnum og leysa úr þeim þegar fyrir liggur að við vitum að til allrar framtíðar, hygg ég, munum við þurfa að halda hér uppi lögreglu í landinu. Við vitum að mestu leyti í hverju þau verkefni gætu verið fólgin þótt við sjáum núna gríðarlega aukin verkefni á tilteknum sviðum. Ég held að það hjálpi bæði þinginu við að taka ákvarðanir þegar kemur að fjárveitingum til málaflokka og eins ráðuneytum, þessu tiltekna ráðuneyti og öðrum líka, ef menn átta sig á hlutunum eitthvað aðeins lengra fram í tímann en einungis fyrir fjárlagaárið 2016. Það á við um alla hluti. Þess vegna bind ég töluvert miklar vonir við það að þessar áætlanir muni gagnast okkur í slíku til lengri tíma.