145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

orkuskipti skipaflotans.

279. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að leita upplýsinga hjá hæstv. umhverfisráðherra um stefnu stjórnvalda þegar kemur að orkuskiptum skipaflotans og hvort hér séu uppi áætlanir um ívilnanir. Þá er ég ekki endilega aðeins að tala um krónur og aura í því samhengi heldur líka í víðara samhengi, hvort verið sé að hlúa að tækni- og rannsóknarumhverfi í þessum geira og líka hvort eitthvað sé uppi um að styðja við þá sem vilja fjárfesta í skipum sem eru knúin umhverfisvænni orku.

Í fréttum um síðustu helgi kom fram að hundrað íslensk fyrirtæki hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem þau skuldbinda sig til að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Yfirlýsingin verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember. Mig langar í því samhengi að vita hvort ráðuneytið sé að vinna að einhverju tengdu nákvæmlega þessu málefni varðandi loftslagsráðstefnuna.

Það er þannig að allur skipafloti Íslendinga gengur fyrir jarðefnaeldsneyti og sumar fiskimjölsverksmiðjur líka. Á því sjávarútvegurinn stóran hluta af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Í fréttum RÚV var haft eftir Svavari Svavarssyni, deildarstjóra hjá HB Granda, að fyrirtækið væri ómeðvitað og meðvitað að draga úr mengun. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hið opinbera, og þá sérstaklega ráðuneyti hennar, að styðja við fyrirtæki í sjávarútvegi með einhverjum hætti til að flýta þessari þróun, efla tækninýjungar og þróun í skipasmíði þannig að nýta megi vistvænt eldsneyti og orku frekar en jarðefnaeldsneyti?

Í skýrslu Alþingis um eflingu græna hagkerfisins kom fram tillaga um að breyta lögum þannig að endurgreiða mætti fjárhæð upp að tilteknu hámarki sem samsvaraði allt að 20% af kostnaði við breytingu sem gera þarf á skipum til að skipta yfir í vistvænt eldsneyti og bæta nýtingu eldsneytis.

Mig langaði að spyrja ráðherrann hvort það hafi verið farið eitthvað eftir því sem kemur fram í skýrslunni um græna hagkerfið og hvaða skoðun ráðherrann hafi á því hvort það sé yfir höfuð á ábyrgð hins opinbera að koma að þessu eða hvort það sé eitthvað sem sjávarútvegurinn eigi að sjá sjálfur um að gera.