145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

orkuskipti skipaflotans.

279. mál
[17:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki mikið að hvetja mig til að vilja reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvetja til tækninýjunga, þróunar og rannsókna. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er ekki langt síðan hér var stofnað fyrirtækið Hafið sem er öndvegissetur varðandi tæknilausnir. Þar eru meðal annars háskólinn og umhverfisráðuneytið innan dyra með fulltrúa til þess að vera með í nýsköpuninni og skoða allar hliðar. Það er nákvæmlega það sem hefur verið talað um, hvort hægt verði að breyta lagi skipa, hvort gera megi vélarnar fullkomnari þannig að þær noti minni orku, hvort hægt sé að breyta um orkugjafa o.s.frv. Ég held að það sé að mörgu að hyggja og ekki síður því sem er mikilvægast fyrir okkur en það er verndun hafsins. Hafið er ekki síður dýrmætt fyrir okkur en loftið. Þetta hangir saman. Það er margt sem við erum nú að huga að varðandi þessa þætti og verndun hafsins, m.a. með því að vinna gegn öllu því plasti sem þar lendir.