145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

tengsl ráðherra við fyrirtækið Orku Energy.

223. mál
[17:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurnin er nú orðin ansi gömul og því miður hefur henni ekki verið svarað fyrr en hér í dag en að hluta til hafa komið fram í fjölmiðlum svör við sumum spurningum sem hafa verið settar fram sem ráðherra kaus að svara eftir afskaplega langan tíma en öðrum ekki.

Ég ætla samt að halda mig við að fara aðeins ofan í þetta og biðja svo ráðherra um að reyna að svara öllum þeim spurningum sem út af standa og ekki hefur verið svarað einhvers staðar annars staðar. Ráðherra hefur nefnilega orðið tvísaga í sumu af því sem komið hefur fram varðandi m.a. launamál, bæði í kvöldfréttum Stöðvar 2 og á RÚV breytti hann upplýsingum sem hann setti þar fram varðandi 3 millj. kr. fyrir fram greidd laun og lán og hvað það nú var og hvernig það var orðað. Mér finnst reyndar umhugsunarefni hvort ráðherra þyki eðlilegt að launaseðill sé gefinn út og skattur og skyldur greiddar af launum löngu eftir að þau hafa verið innt af hendi.

Ráðherra hefur sagt að eina opinbera greiðslan sem hann hafi fengið sé þessi 5,6 millj. kr. margumtalaða launagreiðsla frá Orku Energy. Hún hafi verið vegna vinnu sem hann vann árið 2011 og hann hefur sagt að meginhluti vinnunnar hafi farið fram árið 2011. OG Capital, fyrirtæki og einkahlutafélag ráðherra á þeim tíma, fékk hins vegar 1,2 millj. kr. verktakagreiðslu síðla árs 2012 þegar ráðherra var aftur kominn til starfa á þingi. Í ljósi þeirra orða að meginhluti vinnunnar hafi farið fram árið 2011 hlýt ég að spyrja hvort einhver vinna hafi farið fram á árinu 2012 eftir að ráðherra settist á þing á ný.

Að öðru máli. — Virðulegi forseti, nú veit ég ekkert hvað tímanum líður þar sem klukkan er biluð. Það er spurning tvö, varðandi laxveiðiferðina umræddu og aðrar slíkar ferðir, ég velti því upp hvernig það hafi komið til að ráðherra fór í þessa ferð. Hann hefur birt kvittun í DV minnir mig, þar sem hann segist hafa greitt 45 þús. kr. fyrir daginn. Það er 155 þús. kr. afsláttur miðað við það sem komið hefur fram á veiðiferð með nánum vini og leigusala sínum. Ég spyr ráðherra: Hver var það sem var þá búinn að greiða hluta laxveiðileyfisins, eða telur hann það samræmast góðu siðferði kjörinna ráðamanna þjóðarinnar að þiggja slíkt? Ég er nokkuð viss um að einhverjir sem eru ekki í hans stöðu hefðu gjarnan viljað fá ódýran veiðitúr. Ég spyr líka hvort ráðherra hafi þegið aðrar gjafir, fyrirgreiðslu, lán eða eitthvað slíkt frá þessu fyrirtæki.

Síðasta spurning mín er: Telur ráðherra sig hafa greitt götu fyrirtækisins eða forsvarsmanna þess með einhverjum hætti í ráðherratíð sinni?