145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

tengsl ráðherra við fyrirtækið Orku Energy.

223. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ráðherrann getur reynt að klóra sig út úr þessu hér. Ég er ekki sammála honum í því sem komið hefur fram í fjölmiðlum og verið dregið saman. Hann er spurður spurninga í apríl og ráðherra kýs að svara þeim í Fréttablaðinu — að hluta til, ekki öllum þeim sem hefur verið varpað til hans — í október.

Það er ekki svo að skattframtalið svari öllum spurningum sem beint hefur verið til hæstv. ráðherra enda birtast greiðslur t.d. til einkahlutafélaga ekki í skattframtali einstaklinga eins og við þekkjum.

Ég er bara að segja það að ráðherra er kjörinn fulltrúi almennings, hann á í nánu samstarfi við kaupsýslumann sem starfar í Asíu sem getur haft verulega hagsmuni af því að hafa fyrirtæki sitt í tengslum við ráðherra á Íslandi. Með þeirri viljayfirlýsingu sem varð til í menntamálaráðuneytinu um Orku Energy er það svo að um er að ræða einhvers konar ígildi ríkisfyrirtækis með stjórnskipulega stöðu ásamt Orkustofnun í þessum samningum við Kína og Sinopec og utanríkisráðuneytið hefur ekki getað bent á nein önnur dæmi. Ég spyr ráðherra hvort hann telji að þessi Kínaför sem var skipulögð af hálfu ráðuneytisins samrýmist siðferðislegu, opnu og gagnsæju stjórnskipulagi.

Tengsl vegna veiðiferðar. Upplýsingar berast einhvern veginn til fólks þannig að það er ekki eins og þær detti af himnum ofan. Það er alveg ljóst að með í för var umtalaður stjórnarformaður þess fyrirtækis sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Ráðherra hefur orðið tvísaga í það minnsta þegar kemur að kynnum hans við stjórnarformann Orku Energy. Ég tel það bara ekki trúverðugt að þegar tveir menn á miðjum aldri sem kynnast í gegnum störf annars fyrir hinn þá verði það til þess til dæmis að reiddar séu fram 50 milljónir sisvona af góðmennsku einni saman. Ef um vinargreiða er að ræða hefði ráðherra átt að sýna þá skynsemi að stíga til hliðar þegar kom að þessari umtöluðu Kínaferð og halda vinasambandi sínu og viðskiptum við stjórnarformanninn aðskildum (Forseti hringir.) í stað þess að halda þeim leyndum þangað til hann var nánast neyddur til þess að svara fyrir það.