145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fyrirframgreiðslur námslána.

310. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P):

Virðulegi forseti. Það gleður mig mikið að heyra að hæstv. menntamálaráðherra hafi beint þessum spurningum til nefndarinnar sem fjallar um endurskoðun á málefnum LÍN.

Hins vegar er eitt sem mig langar að benda á, en það eru vanskil við sjóðinn akkúrat núna. Þau eru ekki vandamál sem tengist núverandi stúdentum, þeir hafa aldrei tekið lán áður, þeir eru tvítugir einstaklingar sem hafa aldrei tekið lán áður og þetta er fyrsta skref þeirra út í hinn stóra heim. Núverandi kerfi stuðlar einfaldlega ekki að jöfnum tækifærum til náms, heldur er það frekar líklegt til þess að ýta undir vítahring yfirdráttar sem verður síðan til þess að stúdentar fara seint að heiman sem hefur verið vandamál sem talað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið.

Það gleður mig að heyra að hæstv. menntamálaráðherra vilji endurskoða þessi lög og það sé í farvegi. Hins vegar langar mig að ítreka að þeir sem eru á vanskilaskrá núna hjá LÍN eru ekki þeir sem eru að biðja um lán akkúrat núna. Það þarf einhvern veginn að bregðast við þeim vanda sem steðjar að ungu fólki í dag. (Gripið fram í: Er ráðherrann …?)