145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins.

323. mál
[18:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst sem hér sé upplýst að nokkur vá sé fyrir dyrum ef í ljós kemur að hæstv. ráðherra hefur forsómað það að endurskipa í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Á sínum tíma gegndi sú nefnd ákaflega mikilvægu hlutverki undir forustu ágæts fyrrverandi þingmanns, sem var reyndar landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar. Undir forustu hans taldi ég að sú nefnd hefði unnið mjög þarft verk. Ég minnist þess til dæmis að nefndin, að ég hygg um tólf ára skeið, kostaði sérstakan samning við landssamtökin Beinvernd á Íslandi og hafði uppi mikinn áróður gagnvart skólabörnum um gæði þess að fólk á ungum aldri neytti mjólkur, en eins og hæstv. ráðherra veit skiptir akkúrat mestu máli þegar fólk er ungt að það neyti mjólkur.

Ég tel þess vegna að hæstv. ráðherra eigi að vinda bráðan bug að því að koma nefndinni á laggir aftur því að margt hefur hún ákaflega vel gert. Ég tel að ef hann dregur það öllu lengur sé mikil vá fyrir dyrum hjá mjólkuriðnaðinum.