145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[13:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta sérstaklega fyrir þessa umræðu. Hún skiptir máli. Okkur er öllum þungt í hjarta og tregt um tungu um þessar mundir, það á ekki bara við um þingmenn heldur að ég held þjóðina alla. Það eru sterkar tilfinningar sem bærast með okkur eftir fréttirnar á föstudagskvöldið og umhugsunina um helgina. Það er stutt í reiðina, stutt í óttann og kannski umfram allt mikil hryggð sem situr í manni.

Árásirnar í París eru því miður ekki þær fyrstu af þessum toga. Þær eru ekki þær fyrstu einu sinni síðustu vikurnar, en þær gerast í París sem við þekkjum öll einhvern veginn svo vel, París sem er nálægt okkar, París sem er borg sem við höfum mörg hver heimsótt eða þekkjum í það minnsta mjög vel í gegnum bíómyndir, bækur, menninguna, og árásirnar eru gerðar á ungt fólk sem við samsvörum okkur með, fólk sem er að fylgjast með íþróttaleik, er að fara á tónleika, er að fara út á kaffihús, út að borða — þetta eru allt saman hlutir sem við þekkjum svo vel og teljum sjálfsagða og mikilvæga hluta af okkar frjálsa lífi.

Árásirnar í París eru árás á okkar grunngildi, grunngildi mennskunnar, frjálslyndisins gagnvart öllum einstaklingum sem við lítum á sem grunninn að samfélagi okkar. París og Frakkland er auðvitað táknmynd þessa frjálslynda samfélags, táknmynd frelsis, jafnréttis og bræðralags. Þess vegna er kannski ekki skrýtið að tilfinningarnar þegar ráðist er á París séu sérstaklega sterkar hjá okkur.

Við gerum okkur hins vegar fulla grein fyrir því að árásirnar í París eru bara hluti af miklu stærri mynd. Sjálfur var ég mjög hryggur á föstudaginn yfir hryðjuverkaárásinni í Beirút sem gerð var á fimmtudaginn þar sem yfir 40 manns létu lífið í einhverri hörmulegustu hryðjuverkaárás frá því borgarastríðinu þar lauk árið 1990. Ég held að þó svo að maður sjái að viðbrögðin við árásinni í Beirút, viðbrögðin við árásunum í Tyrklandi á dögunum, árásinni í Bagdad fyrir tveimur vikum, ástandinu í Sýrlandi, séu ekki jafn sterk og nú og tilfinningarnar verði kannski sterkari hjá okkur þegar árásirnar eru nær okkur, þá þýðir það ekki að okkur sé sama um aðra staði. Í grunni hjarta okkar þá erum við jafn reið yfir þessu öllu saman þó svo að það taki okkur kannski aðeins lengri tíma að vinna þá reiði upp úr hjartanu og yfir í heilann og tunguna.

Ég held að ástæðan fyrir því að árásin í Beirút hafði áhrif á mig sérstaklega sé ekki síst sú að ég heimsótti Beirút fyrir stuttum tíma og upplifði þar einmitt að þar býr fólk alveg eins og við sem vill sömuleiðis frjálst samfélag og leggur áherslu á mannréttindi. Það er mikilvægt að við gleymum því ekki að við Evrópubúar, við Vesturlandabúar, höfum engan einkarétt á þessum tilfinningum. Við höfum ekki einkarétt á mannréttindum. Lönd um allan heim eru þátttakendur í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, flóttamannasamningnum o.s.frv. Við megum ekki láta hryðjuverkamennina sigra með því að láta ýta okkur yfir í það að einangra Evrópu og öryggi okkar. Þetta er sameiginlegt allri heimsbyggðinni.

Við þurfum að berjast gegn óttanum með óttaleysi. Við þurfum að hefja mennskuna til enn meiri virðingar. Við þurfum að bregðast við hatursumræðu í okkar samfélagi og alls staðar með ástarumræðu, svara hatri með elsku og vinsemd og við þurfum að styrkja okkar frjálslyndu mannréttindasamfélög og taka þátt í að leysa vandann sem er í öðrum löndum, ekki bara innan Evrópu.