145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með tóninn í þessari umræðu. Það er vandasamt fyrir stjórnvöld í hverju landi sem stendur andspænis voðaverkum af þessu tagi að móta ábyrga og vandaða stefnu. Stjórnvaldið þarf líka að mynda samstöðu. Þess vegna vil ég lýsa ánægju minni með þá varfærnu nálgun sem lýsir af bæði ræðum hæstv. utanríkis- og innanríkisráðherra í þessari umræðu. Það er auðvelt að styðja þá stefnu sem þau hafa a.m.k. til þessa tjáð.

Íslendingar allir hafa fyllst harmi og sorg gagnvart þeim voðaverkum sem unnin voru í París. Við verðum hins vegar að gæta að því með hvaða hætti viðbrögð okkar, bæði stjórnvalda og almennings, verða. Það skiptir mestu máli að þau verði ekki til þess að ýta undir það að hermdarverkasamtökin sem fóru fram í nafni illskunnar nái einhverjum af þeim markmiðum sem þau hafa sett sér. Það er líklegt að tilgangur þeirra sé margþættur: Í fyrsta lagi að ýta undir það að ríkisstjórnir, sem eiga í höggi við þá og fara með vopnum gegn þeim í Sýrlandi og Írak, hrökkvi til baka. Í öðru lagi að skapa ótta meðal borgara þessara ríkja til þess að þau setji þrýsting á stjórnvöld til þess að draga sig út úr þessum átökum. Í þriðja lagi er alveg ljóst að markmiðið er líka það að skapa upplausn og öngþveiti og reyna að etja þjóðfélagshópum saman, helst leiða til blóðugra átaka sem sett geti þessi samfélög í upplausn. Í fjórða lagi er eitt af markmiðunum vitaskuld það að leggja að rótum hins opna og frjálsa samfélags sem einkennir samfélagsgerð okkar. Þess vegna mega viðbrögð okkar ekki verða til þess að þrengja réttarríkið, ekki leiða okkur nær lögregluríkinu, ekki leiða til þess að hatursorðræða skapist gegn flóttamönnum sem eru á flótta undan þessari sömu ógn og alls ekki leiða til þess að einhvers konar illvirki eða hatursorðræða spretti líka gagnvart múslimum. (Forseti hringir.) Við skulum ekki gleyma því að þeir eru sennilega sá þjóðfélagshópur í Evrópu í dag sem er hvað skelkaðastur eftir allt það sem á undan er gengið.