145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Samstarf Evrópuríkja um landamæraeftirlit, svokallað Schengen-samstarf, er í uppnámi. Það er ekki bara í uppnámi, það er nánast ónýtt.

Samstarfið gengur út á það að ytra eftirlit sé virkt en síðan sé lítið sem ekkert innra eftirlit eftir að fólk er komið inn á Schengen-svæðið. Staðan er sú að á degi hverjum streyma þúsundir manna óhindrað inn á Schengen-svæðið án vegabréfaáritunar og oft með fölsuð skilríki. Margir þessara einstaklinga eru að flýja stríð og því ber okkur að taka á móti þeim þó ekki sé nema af mannúðarástæðum. Aðrir nýta sér ástandið í efnahagslegum tilgangi, vilja betra líf í vestrænum löndum, hærri laun, betra bótakerfi o.s.frv.

Tölur frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, benda til þess að einungis 21% hælisleitenda sem komið hafi til ríkja sambandsins séu frá Sýrlandi. Hin 79% hafi komið frá öðrum ríkjum.

Fyrir nokkrum dögum spurði vinur minn sem býr í landi utan Schengen-svæðisins hvaða rök væru fyrir því að hann þyrfti á vegabréfsáritun að halda ef hann vildi koma sem ferðamaður til Íslands, sem tæki mánuð að fá, á meðan þúsundir annarra sem væru ekki að flýja stríðsátök eða af pólitískum ástæðum gætu gengið óhindrað inn á Schengen. Það var fátt um svör.

Staðan í Schengen er orðin sú að einstök ríki innan þess eru farin að búa sér til sínar eigin reglur, setja upp tálma á landamærum, herða reglur um vegabréf, fangelsa fólk o.s.frv. Nýjasta dæmið er Svíþjóð sem var í fararbroddi fyrir tveimur árum þegar kom að móttöku flóttamanna.

Mér finnst frábært að geta ferðast um innan Schengen-svæðisins án sérstaks vegabréfaeftirlits. Eftirlit á ytri mörkum svæðisins er hins vegar einfaldlega ónýtt. Ekkert fer að draga úr flóttamannastraumi á næstunni eða á næstu árum. Það vita allir. Af hverju tökum við ekki upp alvöruumræðu um Schengen í stað þess að ýta vandræðunum á undan okkur þar til allt er komið í óefni?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna