145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans á dögunum var auðvitað fáum ánægjuefni, enda hafa ýmsir haft uppi um hana stór orð. Það er kannski ástæða til að skoða í hvaða stöðu Seðlabankinn er, á hvað er Seðlabankinn að horfa í verkum sínum og með sína ríku skyldu til að viðhalda hér verðstöðugleika. Seðlabankinn sér kjarasamninga, sem augljóslega reyna verulega á stöðugleikann, þar sem ríki og sveitarfélög ekki síður en hinn almenni vinnumarkaður gáfu tóninn. Seðlabankinn sér viðskiptahalla, vöruskiptahalla upp á 8,8 milljarða á fyrri helmingi þessa árs. Seðlabankinn sér samkvæmt eigin tölum að hrein ný útlán innlánsstofnana til heimila hafa aukist um 72% að raunvirði á fyrstu níu mánuðum ársins. Lánabók stóru bankanna þriggja til heimilanna hefur stækkað um yfir 50 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs, það er tala sem slagar upp í skuldaniðurfærsluna frægu, 72 milljarða nettó á fjórum árum. Ef heldur áfram sem horfir munu skuldir heimilanna hætta að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu með sama áframhaldi.

Ríkisstjórnin vinnur ekki með Seðlabankanum. Seðlabankinn segir sjálfur í greiningum sínum núna að aðhald ríkisfjármálastefnunnar fari minnkandi og Seðlabankinn gagnrýnir sérstaklega misráðnar skattalækkanir við þær aðstæður í hagkerfinu. Mér finnst því koma úr hörðustu átt þegar stjórnarliðar koma hingað upp og reyna að kenna Seðlabankanum einum um og skella allri skuldinni á hann, án þess að ég geri lítið úr því að umdeilanlegt er hver virkni stýrivaxtaákvarðananna er í hagkerfi með jafn mikla verðtryggingu og hættuna á gjaldeyrismunarviðskiptum sem auðvitað geta myndað hinn skaðlega spíral sem við þekkjum svo vel.

Mín greining, herra forseti, er sú að það sé sem betur fer ekki kviknað í en hitinn sé að vaxa.


Efnisorð er vísa í ræðuna