145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:41]
Horfa

Karen Elísabet Halldórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Ég stend hér á Alþingi í fyrsta skipti og flyt mína svokölluðu jómfrúrræðu, sem femínistinn í mér mótmælir að sjálfsögðu að sé kölluð svo. Ég ætla að fá að minnast langafasystur minnar, Ingibjargar H. Bjarnason, sem settist hér fyrst kvenna á þing árið 1922 og ég verð að segja að það gleður hjarta mitt að fá að feta í fótspor hennar hér.

En ég stend hérna einnig sem sveitarstjórnarfulltrúi og vil nota tækifærið og minnast á rekstur málaflokksins málefni fatlaðra og þá stöðu sem sveitarfélögin á öllu landinu standa frammi fyrir í dag. Við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga var tilgangurinn einkum sá að bæta þjónustuna við þann hóp og stuðla þannig að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, að eitt stjórnsýslustig bæri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, að tryggja góða nýtingu fjármuna, að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið. Það er allt gott og blessað, tilgangurinn er góður og ég held að sameiginleg niðurstaða þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem þiggja hana sé sú að ástandið hafi batnað og þetta sé skilvirkara.

Hins vegar standa nú yfir viðræður Sambands íslenskra sveitarfélaga við fjármálaráðuneytið um alvarlega stöðu þessa viðkvæma málaflokks. Alls staðar á landinu, vil ég leyfa mér að segja, er verulegur halli á þessum málaflokki og er morgunljóst að það fjármagn sem ákveðið var við yfirfærsluna dugar ekki. Skýrsla Ríkisendurskoðunar árið 2009 varaði reyndar við yfirfærslunni á sínum tíma þar sem ýjað var að því að hvorki fjármagn né þjónusta væru nægilega vel skilgreind og þar af leiðandi væri yfirvofandi vandi, sem hefur því miður orðið raunin. Og raddir heyrast jafnvel frá sveitarstjórnarmönnum og embættismönnum sveitarfélaga þess efnis að réttast væri að skila þessum málaflokki aftur til ríkisins þar sem skuldsett sveitarfélög geti illa skorið niður í grunnþjónustu til að mæta þeim halla sem orðið hefur í rekstrinum. Það er þyngra en tárum taki að hafna jafnvel beiðnum foreldra langveikra, fjölfatlaðra barna sem biðja um einfalda liðveislu. Við ræðum hér um okkar minnstu bræður og systur og ég held að ef skattgreiðendur fengju að ráða og forgangsraða verkefnum ríkisfjármála mundi enginn skilja að aðstoð við þá sem ekki geta fyllilega hjálpað sér sjálfir væri skorin við nögl. Það hefur margsinnis sýnt sig (Forseti hringir.) að íslensk þjóð er velviljuð og stendur saman þegar á reynir og hvað þá þegar kemur að því að hjálpa þeim um aðstoð sem eru í neyð. Ég er ekki að segja að fatlað fólk sé alls staðar í neyð, en það er frumskylda okkar, sem höfum andlega og líkamlega heilsu (Forseti hringir.) til að hjálpa okkur sjálfum, að hjálpa þeim sem geta það ekki sjálfir.


Efnisorð er vísa í ræðuna