145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:46]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir að um 5.500 erlendir gestir sóttu tónlistarhátíðina Airwaves í byrjun þessa mánaðar og samanlagt skildu þessir gestir eftir sig nálægt 1,7 milljarða kr. í gjaldeyri. Þá er ekki talinn sá fjöldi innlendra gesta sem mættu á hátíðina, um 3.500 manns. Hátíðin setur góðan og mikilvægan blæ á borgarlífið yfir háveturinn og gæðir það lífi. Hátíðin hefur einnig átt þátt í því að teygja ferðamannatímabilið yfir á vetrarmánuðina og þannig lagt sitt af mörkum við að gera ferðamannaiðnaðinn að heilsársstarfi. Hátíðin er styrkt um 9 millj. kr. frá Reykjavíkurborg og hefur iðnaðarráðuneytið styrkt hátíðina um 2,5 millj. kr. til þess að standa straum af viðburðum í útlöndum.

Hátíð eins og Airwaves er ekki síður mikilvæg til að lyfta upp því sem er að gerast í íslensku tónlistarlífi því að það er fátt sem borið hefur hróður landsins víðar en menningin okkar; tónlistin, myndlistin, bókmenntir og aðrar listir. Það er nefnilega þar sem hið litla og viðkvæma verður til.

Í góðri bók segir að við eigum að koma fram við hið litla sem stórt og það er þess vegna sem ég nefni það hér. Hvernig við lifum lífinu okkar, hvar við kjósum að búa og hvað við höfum fyrir stafni verður ekki stýrt með misráðnum ákvörðunum stjórnmálamanna. Fólk á að taka ábyrgð á eigin lífi og skapa sér tækifæri þar sem hæfileikar þeirra bera þá.

Dæmið hér að ofan sýnir að eitthvað sem getur í fyrstu virst lítið og ómerkilegt sprikl getur orðið mjög stórt og mikilvægt þegar það fær tækifæri til þess að blómstra. Mörg störf sem tengjast menningu og listum eru nákvæmlega af þeim meiði. Við eigum að sýna því virðingu og skilning og reyna að styrkja það með miklu virkari hætti en við gerum í dag.


Efnisorð er vísa í ræðuna