145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefur kerfið sem við höfum haft í varnarmálum virkað ágætlega frá því að Varnarmálastofnun var lögð niður. Nýverið, eins og kom fram í máli mínu áðan, gerðu innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið samkomulag, til þess að skýra þessa hluti enn frekar, þannig að nú eru allir ferlar á hreinu. Landhelgisgæslan og ríkislögreglustjóri eru með samninga við utanríkisráðuneytið um framkvæmd ákveðinna verkefna. Þetta gengur mjög vel. Það er engin ástæða til þess að breyta því í sjálfu sér.

Annað sem skiptir líka máli er að alþjóðasamningar og samskipti við erlend ríki og við bandamenn okkar fer allt í gegnum utanríkisráðuneytið, að sjálfsögðu. Það væri afturhvarf að færa alla slíka stjórnsýslu yfir á annað stig. Þetta er í samræmi við forsetaúrskurð og í samræmi við þá venju sem við höfum haft.

Mig langar að koma inn á það sem hv. þingmaður sagði þegar hann velti því upp hvort ekki væri ástæða til þess að hefja viðræður við Bandaríkjamenn um aukna viðveru í Keflavík. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að það eru engar slíkar viðræður í gangi og hafa ekki verið. Við erum hins vegar með samning frá 2006 um ákveðinn viðbúnað sem við þurfum að standa skil á í Keflavík. Innan þessa samnings er líka kveðið á um ákveðnar skyldur sem Bandaríkjamenn hafa, bandamenn okkar. Að sjálfsögðu leyfir sá samningur að viðvera á Keflavík sé metin frá degi til dags eftir þörfum og annað. Við höfum séð það. Í fyrra var til dæmis meiri viðvera í Keflavík en oft áður einfaldlega vegna þess að það var ástæða til þess. Það er ekki verið að semja um einhverja endurreisn í Keflavík eitthvað slíkt. Það er hins vegar full ástæða til þess að yfirfara samninginn sem gerður var 2006 og kanna hvort hann hefur staðist tímans tönn, hvort þurfi að breyta einhverju. (Forseti hringir.) Það er það sem við munum leggja áherslu á, væntanlega á næsta árið, að fara yfir (Forseti hringir.) þennan samning, hvort hann gagnist okkur, hvort hann sé til framtíðar.