145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka kærlega fyrir svörin. Þetta er einmitt grundvallarmál sem skiptir miklu. Bæði hlýtur það að vera þannig að þjóðaröryggi okkar yrði veikara ef erlendar þjóðir eða þjóð hefðu aðgengi að öllum samskiptum æðstu ráðamanna ríkisins eða þeim sem fara fyrir mikilvægum stofnunum eða fyrirtækjum í landinu. Það er því mjög brýnt að við gerum það sem við getum til að tryggja að þau sjónarmið séu á lofti að það sé óásættanlegt að okkar bandalagsþjóðir geri slíkt; mér finnst mjög mikilvægt að við séum ekki í bandalagi við að taka þátt í þannig starfi gagnvart öðrum þjóðum, gagnvart borgurum annarra þjóða jafnframt.

Það er eitt sem ég hjó líka eftir. Við vorum með skiptar skoðanir þegar við vorum að móta þjóðaröryggisstefnuna. Það eru bókanir frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem eru svolítið ólíkar varðandi kjarnorkuvopn og hvort við eigum að vera mótfallin því að slíkt sé í okkar landhelgi. Það er svolítill orðaleikur í þessari stefnu sem segir að við séum á móti kjarnorkuvopnum og séum tilbúin til að beita okkur gegn kjarnorkuvopnum eða með kjarnorkuafvopnun svo framarlega sem það brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga. Þá vita náttúrlega allir að það er NATO.

Mig langar að spyrja hvort hv. þm. Birgir Ármannsson telur að við getum nokkurn tímann beitt okkur í alvörunni fyrir afnámi kjarnorkuvopna meðan við erum í NATO.