145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er margt gott um þetta mál að segja, bæði það sem slíkt og kannski ekki síður vinnuna sem á bak við það er. Ég held að ekki sé ofmælt að sú vinna, þessi tillaga og afgreiðsla hennar ef vel tekst til, marki talsverð tímamót. Ég vil trúa því að hér sé lagt upp með hrygglengju að meiri samstöðu um þessi mál en við höfum oft átt að venjast til baka litið. Við þekkjum þá umræðu og höfum tekið þátt í henni, meðal annars hér á þessum vettvangi í þrjátíu ár. Við munum þá tíma þegar öll umræða um utanríkis- eða hernaðar- eða öryggismál var í ansi miklum og stífum skotgröfum. Það fór ekki mikið fyrir samnefnaranum. Mér er nær að halda að það þurfi aftur fyrir 1949 eða 1951 til að finna tíma þar sem er efniviður í jafn breiða samstöðu um mikilvæga þætti þessara mála og hefur verið að fæðast núna á síðustu árum og með þessari vinnu. Þá vísa ég að sjálfsögðu til þess að frá því að Ísland varð fullvalda ríki 1918 og ákvað sitt hlutleysi og fram að 1949 var um það mál góð samstaða. Menn voru svo harðir á hlutleysinu að við urðum ekki einu sinni stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum fyrir vikið eins og kunnugt er. Almennt hef ég upplifað söguna þannig að á þessu árabili, frá því um 1920 og fram að miðri síðustu öld, hafi verið nokkuð breið samstaða um að hornsteinn utanríkisstefnunnar væri hlutleysisstefnan.

Svo taka við aðrir tímar og þeir urðu ansi kaldir og ansi grimmir og harðir á köflum. En þakkarvert er að við erum smátt og smátt að þokast lengra í burtu frá þeim. Það held ég að byggi svolítið á þeirri nálgun sem hér hefur orðið niðurstaðan, þeim skilgreiningum og þeim útgangspunkti sem tekinn er. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með inngang tillögunnar, inngangsmálsgreinarnar eru merkilegar, samanber t.d. þriðju málsgreinina þar sem tekinn er útgangspunktur í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau grunngildi sem þar eru talin upp; lýðræði, virðing fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti fyrir alla, sjálfbær þróun, afvopnun og friðsamleg lausn deilumála. Þá er næst tekið fram að grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hafi burði né vilja til að ráða yfir her. Hér er mjög tryggilega fest í sessi sú grundvallarstefna okkar að við ætlum ekki að vígbúast, ekki að hervæðast. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Stefnan taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.“

Gott og vel. Síðan kemur að upptalningunni. Þar eru líka ákveðin tímamót. Það er byrjað á því og talið upp í 1. lið að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði. Hæstv. utanríkisráðherra upplýsti hér að þarna væri orðið „umhverfishagsmunir“ nýtt ef ég skildi hann rétt. Það er auðvitað vel.

Síðan kemur að töluliðum 2 og 3 sem vissulega má deila um, samanber flokkunina sem ég vík betur að síðar, hvort ættu að teljast upp þarna miðað við það áhættumat sem liggur til grundvallar flokkuninni þar sem hernaðarógn er sett í þriðja flokk yfir hættur sem ólíklegt er að steðji að Íslandi, hvort þetta eigi þá að koma endilega númer 2 og 3. Við þetta höfum við fyrirvara eins og kunnugt er og meginástæðan er sú að fulltrúar okkar í nefndinni á sínum tíma lögðu inn bókun og ég vísa til hennar.

Fjórði töluliðurinn er líka dálítið merkilegur, um að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf. Fyrir um 15 árum hefði þetta nokkurn veginn verið óhugsandi, eða 20 skulum við segja, það eru að nálgast 20 ár síðan utanríkisráðherrarnir mættu fyrst á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 1988. Nú er umræða um utanríkis- og öryggismál orðin veigamikill þáttur í dagskrá í norrænu samstarfi, samanber Norðurlandaráðsþing í Reykjavík á dögunum. Ég er sömuleiðis sammála um að þessu á að lyfta upp. Ég lít svo á að norrænt og vestnorrænt samstarf sé einn af hornsteinum okkar utanríkisstefnu.

Til að stytta mál mitt vík ég að 9. töluliðnum sem að sjálfsögðu gleður mig, en þar segir: „Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“ Þetta er afar ánægjulegt að sjá og er þá ekkert mikið eftir, verði tillagan samþykkt, annað en það sem hefur lengi staðið upp á okkur, að lögfesta þessa stefnu. Ég hef líklega einum tíu sinnum lagt fram nokkuð viðamikið frumvarp um kjarnorkufriðlýsingu Íslands. Ég hyggst gera það á næstu dögum. Ég hef verið að vonast til þess að fá enn þverpólitískari stuðning við það í formi meðflutningsmanna en hingað til. Oftast hafa ýmsir af forustumönnum Framsóknarflokksins flutt málið. Ég bíð enn eftir svörum. Sjálfstæðismenn hafa verið tregir í taumi og þar kemur að því í sambandi við 9. töluliðinn að þar verða þau hlutverkaskipti að það eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem einir bóka fyrirvara við þessar áherslur. Það þýðir á mannamáli að við þetta er stuðningur án fyrirvara frá fulltrúum allra annarra flokka. Það er ánægjulegt. Þá er að vinna í vinum okkar sjálfstæðismönnum að þeir komi með í hópinn og við klárum það að lögfesta og setja í lagabúning þá stefnu sem eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi réttilega var formgerð fyrst með þingsályktun á miðjum níunda áratug síðustu aldar, að hún sé líka lögbundin sem kjarni í áherslum okkar að þessu leyti.

Þá ætla ég að víkja aðeins að flokkuninni sem mér finnst mjög áhugaverð og satt best að segja ekki minni tímamót en annað í þessu máli, jafnvel þau mestu. Fyrir mér er það mikil framför, mikill sigur þeirra sjónarmiða sem hafa viljað breikka öryggishugtakið út og taka raunsæja og praktíska nálgun á þetta viðfangsefni, að skilgreina í hverju eru öryggi og velferð og vellíðan almennra borgara á Íslandi fyrst og fremst fólgin, hvað er það sem að okkur steðjar sem getur ógnað tilveru okkar hér.

Í flokki eitt eru hættur sem ber að setja í forgang með hliðsjón af vígbúnaði og fjármunum. Í fyrsta lagi er það umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum. Ekki ætla ég að gera ágreining um þetta. Hér undir mundi ég flokka súrnun sjávar sem sennilega er sú einstaka ógn sem er okkur Íslendingum langalvarlegust og tengist hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. Í öðru lagi eru það netógnir og skemmdarverk á innviðum samfélagsins. Já. Við getum tekið sem dæmi orkukerfið og orkuöryggi landsmanna. Við erum með samtengt raforkukerfi sem er algerlega tölvuvætt og stýrt á þann veg. Að stærstum hluta eru mannvirkin orðin ómönnuð. Innrás í slík kerfi getur valdið stórkostlegum skaða. Í þriðja lagi eru það svo náttúruhamfarir. Ekki þarf að fjölyrða um þær, við þekkjum þær, við erum með reglubundnu millibili í viðbragðsstöðu út af slíkum hlutum.

Í öðrum flokki eru ógnir sem þarfnast fullrar athygli. Þar er fyrst talin skipulögð glæpastarfsemi. Já, svo sannarlega, hún hefur verið að banka hér á dyrnar af og til, glæpaklíkur frá hinum Norðurlöndunum, mótorhjólagengi eða hvað það nú er sem eiga ekkert skylt við mótorhjól heldur eru bara glæpaklíkur, selja fíkniefni og stunda mansal og vændi. Þær hafa verið að reyna að ná hér fótfestu. Við vitum það og þetta á tvímælalaust heima þarna. Síðan er það fjármála- og efnahagsöryggi. Já, ætli það ekki, svona í ljósi nýlegrar reynslu, ætli það sé ekki vissara að hafa það með. Fæðu- og matvælaöryggi. Já. Heilbrigðisöryggi og farsóttir. Já. Við höfum farið yfir hvort tveggja á umliðnum árum þegar viðsjárverðir tímar hafa verið hjá okkur. Og hryðjuverk. Já, því miður. Sennilega dugar ekki einu sinni sjálft Atlantshafið til að tryggja okkur fyrir því að slíkt geti ekki barið hér að dyrum, þótt við séum vissulega að mörgu leyti betur varin en ýmsir aðrir í þeim efnum.

Í þriðja flokki eru hættur sem ólíklegt er að steðji að Íslandi en mundu vega að fullveldi og sjálfstæði landsins. Þar er bara eitt talið upp og það er hernaðarógn. Hún er ólíklegust. Hún er í þriðja flokki. Ég er algerlega sammála og hef alltaf verið. Mér hefur alltaf fundist hin mikla áhersla á að reyna að setja öryggismál Íslands og Íslendinga inn í vígbúnaðarsamhengi stórþjóðanna eða landa sem liggja allt öðruvísi landfræðilega vera mikill misskilningur.

Ef við erum sæmilega sammála um þessa flokkun er eðlilegt að lesa í tillöguna og raða henni upp og ráðstafa fjármunum í samræmi við það. Þá finnst mér hæstv. utanríkisráðherra reyndar ekki vera á réttri braut þegar hann boðar núna aukin útgjöld. Til hvers? Ekki í flokk eitt eða tvö heldur mest í verkefni sem mundu tengjast þriðja flokknum. En látum það liggja milli hluta á þessum góða degi. (Forseti hringir.) Hér erum við aðallega í því að þræða upp samstöðuna. Mér finnst þetta vera mjög gott mál og ég vona að það sé hægt að lenda því hér í þinginu, ef ekki í algerlega fullri samstöðu með einróma afgreiðslu að lokum þá með svipuðum hætti og nefndin lauk sínum störfum, að menn sameinist um hrygglengjuna í þessu og hafi þá eftir atvikum fyrirvara um einstök efnisatriði.