145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:36]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu sérstaklega en mér er það ljúft og skylt að koma hingað upp og lýsa yfir ánægju með að hér sé mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég var einn þeirra sem var frekar leiður yfir því að þessi þingsályktunartillaga skyldi ekki komast alla leið í gegnum þingið á síðasta þingi eftir góða og mikla umfjöllun í utanríkismálanefnd. Ég vil lýsa því yfir að ég hlakka til þess að utanríkismálanefnd taki tillöguna aftur til umfjöllunar. Það er mikilvægt að við setjum okkur stefnu og að það sé Alþingi sem vinni að þeirri stefnu. Þess vegna vil ég sérstaklega fagna þessari stefnu og tilurð hennar, hvernig hún verður til upp úr ákvörðun þáverandi hæstv. ráðherra og síðan með vinnu þingmanna úr öllum þingflokkum sem þá sátu á þingi. Það hefur stundum verið talað um það í umræðunni áður að hlutirnir séu síkvikir, það er talað um það gagnvart áhættumatinu, að það sé kannski orðið gamalt og úrelt frá árinu 2009. Ég tek undir að mikilvægt sé að fara í það verk að gera nýtt áhættumat hið fyrsta. Fleira breytist og þar á meðal pólitíkin og nú þegar þessi þingsályktunartillaga, sem er byggð á vinnu nefndar sem starfaði á síðasta kjörtímabili, kemur fyrir þingið eru tveir flokkar sem sitja á þingi sem eru nýir og voru ekki þátttakendur í vinnunni en Björt framtíð og Píratar tóku þátt í vinnunni í utanríkismálanefnd á síðasta þingi og koma til með að gera það aftur núna. Ég sé engin merki þess, í það minnsta ekki frá hendi míns flokks, Bjartrar framtíðar, að ekki geti myndast breið og góð samstaða um málið.

Það skiptir máli að setja stefnur þótt þær séu tiltölulega almennar og auðvitað verði þær alltaf að einhverju leyti kvikar eftir því hvað gerist í umheiminum. Mér finnst mikilvægt að það skuli koma beint fram í inngangi tillögunnar ákveðin yfirlýsing sem mig langar til að lesa upp og taka undir, með leyfi forseta,

„Stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála.“

Mér þykir þessi yfirlýsing ná ágætlega yfir þau grunngildi sem ég held að við séum öll sammála um, eins og kom svo ágætlega fram í góðri umræðu fyrr í dag um voðaverkin í París. Ég get að öðru leyti tekið undir ábendingar eða gagnrýni sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum í dag. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur bent á í bæði ræðu og andsvörum að gera mætti meira úr þeirri vá sem að loftslagsmálin eru vissulega fyrir okkur. Það er ákveðinn grundvöllur þess að öryggi Íslendinga standi að ekki verði hörmungar af völdum loftslagsáhrifa. Þrátt fyrir að ég taki undir að umhverfis- og öryggishagsmunir Íslands á norðurslóðum séu mikilvægir er það svo að loftslagsmálin eru alþjóðleg og Ísland er jú ekki aðeins á norðurslóðum heldur á jarðarkringlunni allri. Sjórinn sem umlykur landið, heilbrigði sjávar og sjávarstrauma er auðvitað lykilatriði í öryggi og því að Ísland sé lífvænlegt. Ég get því tekið undir þetta og vona að í umfjöllun nefndarinnar takist okkur einhvern veginn að hnykkja betur á því. Ég get einnig tekið undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem finnst öryggismálin og varnarþátturinn vera dálítið áberandi í skjalinu eins og það er lagt fram. Það skýrist kannski að einhverju leyti af því að það er auðvitað hæstv. utanríkisráðherra með fulltingi ráðuneytis síns sem hefur búið tillöguna og leggur fyrir þingið. Það liggur í tillögunni að þetta sé ekki endanleg útfærsla af þjóðaröryggisstefnu til allrar framtíðar heldur eigi einmitt eftir að bæta á hana alls konar kjöti og það sömuleiðis þarf að vera skýrt í umfjölluninni.

Annars fagna ég framlagningunni og hlakka til vinnunnar í utanríkismálanefnd. Ég held að hér sé bæði plagg sem við eigum eftir að byggja vel á og ekki síður fordæmi í vinnubrögðum, sem hefur sýnt sig að getur væntanlega búið til breiða sátt um mikilvægt mál sem öllum kemur við.