145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[17:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé samkvæmur sjálfum sér í nútíð sem fortíð og harður andstæðingur aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það sem hins vegar vefst fyrir mér er hvernig hv. þingmaður vill að við tryggjum ytra öryggi lands og þjóðar ef hann sér þann draum sinn rætast að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu. Hv. þingmaður talar líkt og íslensk stjórnvöld séu algjörlega áhrifalaus á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, á það hver stefna NATO sé á hverjum tíma. Það er auðvitað eins og hver önnur vitleysa. Þegar hv. þingmaður sat sem dómsmálaráðherra og síðar innanríkisráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafði hann gullið tækifæri til að setja mark sitt á störf og stefnu og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins. En hann kaus að samþykkja þegjandi aðgerðir Atlantshafsbandalagsins gagnvart Líbíu þegar hafnar voru loftárásir á Líbíu.

Ég spyr því: Er ekki spurning, hv. þingmaður, fyrst við erum í Atlantshafsbandalaginu að við reynum þá að beita áhrifum okkar þar, ólíkt því sem hv. þingmaður og ríkisstjórn hans gerðu á síðasta kjörtímabili?