145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær spurningar sem hún hefur beint til mín.

Ég vil taka fram að eins og þekkt er býr ráðherrann ekki til lög eins og sagt var. Það er auðvitað þingið sem samþykkir lögin, hér er einungis um að ræða frumvarp.

Hvað varðar fyrirmyndir er hárrétt hjá hv. þingmanni að horft er mjög til norrænnar lagasetningar á þessu sviði og norrænna höfundalaga. Ég vísa meðal annars til umfjöllunar um 5. gr. sem er á blaðsíðu 17 í frumvarpinu, þar sem fjallað er um ákvæði sem heimilar samningskvaðaleyfi, en það er megininntakið í þessum lögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samsvarandi heimild og hér er lagt til að tekin verði upp er að finna í öðrum norrænum höfundalögum en ákvæði þeirra eru misvíðtæk. Hér er lagt til að fylgt verði finnskri, norskri og sænskri fyrirmynd þar sem haft er að leiðarljósi að samningsaðilar hafi svigrúm til að semja um not verka …“ o.s.frv.

Vitanlega er hægt að finna í frumvarpinu staði þar sem sótt er til sænskrar löggjafar. Hægt er að finna aðra staði þar sem sótt er til finnskrar og norskrar en það eru þessi þrjú lönd sem við höfum einkum horft til. Megintilgangurinn er, eins og kom fram í ræðu minni, að samhæfa íslenskan rétt við það sem gerist á Norðurlöndum.

Hvað varðar þá endurskoðun, eins og hv. þingmaður lýsti, á vettvangi Evrópusambandsins er alveg rétt að stanslaus þróun er í þessu. Það mun verða þannig hér. Við munum aftur og aftur sjá þessi mál koma hér með einhverjum hætti vegna þess að þær tæknibreytingar sem verða kalla á að við séum mjög vakandi yfir breytingum á höfundaréttarlögunum.

Hvað varðar 9. gr. vil ég ekki fullyrða neitt nákvæmlega um hversu vel hún nær tilgangi Marrakesh-sáttmálans (Forseti hringir.) og heldur get ég ekki lýst yfir neinu hvað varðar lögfestingu hans. Það er verið að leita leiða til að tryggja sem best rétt þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða heyrnarlausir.