145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um 1. gr. frumvarpsins. Ef ég má lesa upp úr henni, með leyfi forseta:

„Með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni.

Eintakagerð telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er.“

Það sem ég hef áhyggjur af og spyr hæstv. ráðherra um er hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að verið sé að gera heila kynslóð ungmenna að glæpamönnum með þessu. Í raun er til nokkuð sem heitir Remix-kúltúr sem er réttur til blöndunar, til að vitna í verk, til að hæðast að verki. Þetta er leið sem ungt fólk notar í dag til að tjá sig á internetinu, tjá skoðanir sínar og notar það sem er að gerast í samfélaginu með því að mixa og setja saman. Þetta er algengt. Mér finnst þetta ákvæði svo furðulegt, þ.e. eins og ég skil það. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þessu og hvort ég skilji það rétt að verið sé að banna þetta. Nú er ég að tala um fólk sem er að nota þetta og fær ekki greitt fyrir, það græðir ekki neinn pening á því. Þetta er bara tjáningarform.