145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Endurskoðun höfundalaga og afleidd réttindi höfundaréttar er tímabær og einn af hornsteinum þeirra stjórnmálasamtaka sem ég tilheyri, Pírata.

Höfundaréttur er nefnilega dæmi um lög sem sköpuð voru á sínum tíma í ákveðnu rúmi til þess að vernda ákveðinn iðnað. Það eru lög sem við höfum erft frá gamalli tíð og þarf að endurskoða þau grunngildi sem þau byggja á.

Innan höfundaréttar eru nefnilega tvenns konar hugsanir sem takast á. Annars vegar er um að ræða siðferðislegan rétt höfundar um að fá að vera kenndur við verk sitt og réttinn til að stjórna fyrstu birtingu verks síns. Það er siðferðislegur réttur. Á frönsku kallast það „droit moral“ og á ensku „moral rights“. Þarna liggja heimspekilegar forsendur að baki sem koma fram í umræðu á evrópskri grundu með endurreisninni og upplýsingunni á 16., 17. og 18. öld þegar höfundurinn varð til.

Að sérhver er höfundur orða sinna og verður alltaf höfundur orða sinna er heimspekileg hugsjón um tíma og rúm, orð og siði og það er nokkuð sem aldrei er hægt að taka frá neinni manneskju. Það getur enginn tekið orðin af manni. Það er grundvöllur tjáningarfrelsisins.

Þetta er grundvöllur alls höfundaréttar og sá hluti höfundaréttar sem ég vil standa vörð um; siðferðisleg réttindi höfundar til þess að vera kenndur við verk sitt. Þau réttindi eru ekki framseljanleg en það sama er ekki hægt að segja um afleidd réttindi höfundaréttarins.

Annað sem spilar hér inn í eru efnahagsleg réttindi sem tryggð eru með afleiddum réttindum höfundar, höfundaréttar. Þessi afleiddu réttindi eru það sem á ensku kallast „copyright“ en mætti kallast á íslensku dreifingarréttur eða afritunarréttur. Þessi afleiddu réttindi höfundaréttar eru fjölmörg; birtingarréttur, flutningsréttur, miðlunarréttur, útgáfuréttur. Þetta er það sem heitir í raun og veru rétthafaréttur. Öll eiga þau sameiginlegt að vera samtvinnuð einhvers konar efnahagslegum ávinningi. Þetta er því efnahagslegur réttur sem veitir rétthöfum á þessum sértæku réttindum einkaleyfi á því að flytja, dreifa, birta eða gefa út ákveðin verk eftir samkomulagi við höfunda.

Það er ekki höfundaréttur í þeim siðferðislega skilningi sem grunnhugmyndin um höfundarétt er byggð á, heldur er hægt að rekja það aftur til miðalda, til borgríkis Lundúna þar sem einkaleyfi voru gefin út til að fá að prenta bækur. Síðar meir var það samtvinnað siðferðislegum réttindum um höfundarétt sem búið hefur til vafning siðferðislegra og efnahagslegra réttinda og er erfitt að greina muninn á því hvað er hvað.

Höfundalög geyma því margslungin réttindi í íslenskum lögum, allt frá þessum grunnforsendum til þess að vera kenndur við verk sitt og svo afleiddum réttindum þess.

Með leyfi forseta langar mig til þess að lesa upp úr greinargerð frumvarpsins um megintilgang og markmið þess að endurskoða höfundalög:

„1. Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.

2. Áhersla er lögð á að haldið sé lagasamræmi við önnur norræn höfundalög.

3. Efla þarf virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið.

4. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnargildi.

5. Stuðla ber að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð.

6. Höfundalög eiga að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.

7. Leggja ber áherslu á leiðbeiningar og fræðslu um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.

8. Áhersla er lögð á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði höfundaréttar.“

Þarna er hvergi minnst á réttindi eða hag höfunda. Þarna er talað um að höfundalög eigi að stuðla að jafnvægi milli rétthafa og notenda og að leiðbeiningar og fræðslu þurfi um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.

Virðulegi forseti. Rétthafar eru ekki endilega höfundar. Sumir höfundar eru rétthafar en ekki allir rétthafar eru höfundar. Höfundar framselja í ríkari mæli þau efnahagslegu réttindi sem þeir eiga, að fá að birta, dreifa og gefa út verk sín. Það er það sem kallast rétthafaréttur og er einn af afleiddum réttindum höfundaréttar. Handhafi rétthafaréttarins er oftar en ekki útgáfufyrirtæki eða stærri einingar.

Þetta er sá hluti höfundalaga sem ég set spurningarmerki við. Höfundalög eiga að þjóna hagsmunum höfunda og styrkja þá í sambandi sínu við handhafa útgáfuréttarins og dreifingarréttarins. Rétthafarétturinn hefur fengið of sterkt vægi og honum er blandað í of ríkum mæli við höfundaréttinn með því að setja það inn í höfundalög. Þarna eru oft ólíkir hagsmunahópar og með því að skýra það ekki nógu vel gerum við höfundum bjarnargreiða. Með því að setja ekki nógu skýr mörk á milli þessara réttinda veikjum við stöðu höfunda og styrkjum stöðu sterkra útgáfufyrirtækja, dreifingaraðila sem hafa einhver réttindi sem eru ýmist aðkeypt eða sem höfundar hafa afsalað sér með lélegum samningum.

Árið 2014 var gefin út skýrsla af framkvæmdaráði Evrópusambandsins eftir samræður við almenning um afstöðu almennings um afritunarrétt, eða „copyright“ upp á ensku. Þar voru höfundar og rétthafar ekki flokkaðir í sama hóp heldur hvor í sinn hópinn. Tíu þús. manns svöruðu spurningalista framkvæmdaráðsins varðandi afstöðu sína til þessa máls og þar af var yfir helmingurinn venjulegt fólk, svokallaðir notendur á lagamáli.

Það sem var mjög einkennilegt við svörin var að notendur og höfundar voru sammála um ýmislegt, en rétthafar og útgefendur voru oftar ósammála notendum og höfundum en maður mundi búast við. Það sem fram kom í spurningunum um það hvort höfundar fengju sinn skerf af kökunni voru notendur og höfundar sammála um að svo væri ekki. Höfundar kvörtuðu yfir slæmri samningsstöðu því að rétthafarnir stíuðu þeim í sundur þannig að erfitt væri fyrir höfunda að komast að því hvað væri eðlilegt á markaðinum.

Fram kom að nýir höfundar ættu sérstaklega erfitt með að fá greitt fyrir störf sín. Hins vegar voru rétthafarnir, útgáfufyrirtækin, innheimtusamtökin og aðrir milliliðir á þeirri skoðun að höfundar hefðu það bara gott, að höfundar fengju nóg fyrir sinn snúð, að höfundar og rétthafar væru í góðum samskiptum og að jafnræðis væri gætt. Notendur voru á sama máli og höfundar. Notendur vilja borga fyrir afnot af list, fyrir það að fá að upplifa, lesa og heyra. Þeir eru hins vegar ekki tilbúnir að borga ósanngjörnum milliliðum til þess að þeir gefi höfundunum eina krónu í staðinn.

Það frumvarp sem hér um ræðir mundi veikja stöðu höfunda ef það yrði samþykkt eins og það er nú. Það langar mig til að útskýra nánar og til þess þarf ég að fá að útskýra hvað orðið samningskvaðaleyfi þýðir. Samningskvaðaleyfi heitir upp á engilsaxnesku „extended collective licensing“ og hefur verið kallað skandínavíska módelið þar sem það var fyrst tekið upp á Norðurlöndunum. Samningskvaðaleyfi snúast um að ein innheimtusamtök hafa rétt til að innheimta gjöld fyrir flutning á ákveðinni tegund verks óháð því hvort listamaðurinn er hluti af þessum innheimtusamtökum eða ekki. Til þess að fá samningskvaðaleyfi þurfa viðkomandi innheimtusamtök að fá viðurkenningu frá ráðuneytinu og þau hafa markaðsráðandi hlutdeild á sviði innheimtu á sínu sérstaka sviði.

Ég set spurningarmerki við það vegna félagafrelsis, sérstaklega þar sem það er sett inn í höfundalög og að allir höfundar séu sjálfkrafa meðlimir í þessum innheimtusamtökum nema þeir kjósi að segja sig úr þeim. En þrátt fyrir það hafa innheimtusamtökin réttindi til að innheimta fyrir vinnu þeirra. Þarna er í raun og veru verið að gefa ákveðnum félagasamtökum eða innheimtusamtökum rétt til þess að fá greitt fyrir annarra manna vinnu, jafnvel vinnu látins fólks, það skiptir ekki máli. Þarna er í raun verið að sjá til þess að einhver samtök sem eru ógagnsæ í eðli sínu fái rétt til þess að innheimta peninga. Þetta eru innheimtusamtök.

Einnig set ég spurningarmerki við það hvort þetta fyrirkomulag muni verða úrelt eftir nokkur ár þar sem Ísland mun óhjákvæmilega innleiða tilskipun Evrópusambandsins frá 2014 um innheimtusamtök, „collective rights management directive“, með leyfi forseta, þar sem kveðið er á um hvernig lög um innheimtusamtök skuli vera. Þar er meðal annars kveðið á um að bannað sé að takmarka samkeppni hjá innheimtusamtökum. Með núverandi frumvarpi er í raun og veru verið að takmarka samkeppni hjá innheimtusamtökum þannig að einungis ein innheimtusamtök fái leyfi til þess að taka peninga fyrir flutning á annarra manna verkum undir einni tegund af listgrein. Þeir sem eru með Myndstef fá að innheimta fyrir alla notkun á myndverkum sem til eru, en þá er engin samkeppni.

Mér finnst vera kominn tími til þess að endurskoða höfundalög. Það er kominn tími til að þess að aðskilja öll þessi mismunandi réttindi og það er kominn tími til þess að færa eitthvað af því inn í sérlög. Lög um innheimtusamtök á rétthafavörðu efni eiga alveg rétt á sér. Það getur vel verið að samningskvaðaleyfi séu hagkvæm fyrir land eins og Ísland sem er lítið og takmarkað. Hins vegar er mikilvægt að höfundalög gæti hagsmuna höfunda fyrst og fremst. Ég tel að það eigi frekar að búa til lög um samningskvaðir í sérstökum lögum um innheimtusamtök og að það eigi ekki heima í höfundalögum heldur í sérstökum innheimtusamtakalögum eða samningskvaðasamningalögum.

Með því að setja lög um samningskvaðir með þessu móti inn í höfundalög er verið að blanda saman réttindum innheimtusamtaka, rétthafa og höfunda. Það þarf að skýra línuna þar á milli. Það er eitt helsta vandamál núverandi höfundaréttar að höfundar hafa ekki nógu skýra og sterka rödd þar sem hagsmunir höfunda og rétthafa fara ekki alltaf saman, hvað þá hagsmunir innheimtusamtaka og höfunda.

Við píratar erum ávallt reiðubúin til að eiga málefnalegt samtal við ráðherra auk höfunda og rétthafa um þennan mikilvæga málaflokk. Minn flokkur hefur mikla sérþekkingu og áhuga á þessum málum, og er ég hér að tala um alþjóðahreyfingu Pírata sem vinnur núna að endurskoðun höfundaréttarlaga í Evrópu. Við erum ekki með öfgafull viðhorf heldur reynum við að vera raunsæ, en raunsæi er eitt af því sem skort hefur verulega á í stefnumótun um höfundarétt í breyttum heimi. Ég býð ráðherra og hagsmunaaðilum hér með í gott og málefnalegt samtal um alvöru raunsæja stefnumótun í málaflokknum.