145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[18:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem stendur í umfjöllun um 5. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Þeir höfundar sem standa utan samtakanna sem samningskvaðaleyfið tekur til hafa sama rétt til þóknunar og þeir sem hafa veitt samtökunum samningsumboð til að koma fram fyrir þeirra hönd og geta jafnframt gert kröfu á samtökin um að fá þóknun greidda beint til sín, sbr. 11. gr. frumvarpsins.“

Síðan vil ég líka vekja athygli á því að í umfjöllun um 5. gr. kemur fram, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef aðilar ná ekki samkomulagi um samningskvaðaleyfi á grundvelli ákvæðisins geta þeir leitað eftir sáttameðferð …“

Með öðrum orðum held ég að þannig sé búið um þetta að það á að vera öllum til hagsbóta. Ég ítreka að það er ekki kvöð um það að menn séu innan slíkra samtaka. En það er alveg hárrétt að með því að þeir standa utan en slíkur samningur er gerður þá fá þeir greitt. Þeir geta auðvitað afsalað sér greiðslunni en þeir geta líka brugðist við og farið gegn því að þetta sé birt, en þá þurfa þeir að hafa frumkvæði að því sjálfir. Þetta er ekki svo að það séu allir skyldaðir þarna undir. Menn hafa fullt svigrúm, að mínu mati, bæði til þess að hafna greiðslu ef þeir vilja eða til að bregðast við ef á að birta verkið. Aðalatriðið er að þar sem þetta er líka afmarkað fyrirbæri, þ.e. samningskvaðaleyfið, og byggt á samsvarandi ákvæðum og eru í norrænum rétti þá held ég að menn geti verið nokkuð vissir um að þetta sé til styrkingar, enda hafa ekki komið fram athugasemdir hjá þeim sem hafa fjallað um þetta í samráðsferlinu um að þetta sé með nokkrum hætti til veikingar á stöðu höfundar.