145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[18:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að árétta að samningskvaðaleyfin snúast ekki um það hvort einhver fái að ráða því hvort eitthvað sé birt. Þetta snýst um það að þegar verk er birt og það eru einhver gjöld sem hægt er að innheimta þá mega innheimtusamtökin innheimta gjöldin þrátt fyrir að einstaklingur standi fyrir utan samtökin. (Gripið fram í.) Síðan greiða samtökin það út. Til þess að vera ekki í innheimtusamtökunum þarf að segja sig úr þeim. (Gripið fram í.) Jú, það er tilgangurinn með samningskvaðaleyfum, það er það sem samningskvaðaleyfi snúast um, að þau taki til allra verka sem eru í sérstakri listgrein. Samningskvaðaleyfin snúast um þetta og við það set ég spurningarmerki. Það er ástæðan fyrir því að ég vil að samningskvaðaleyfi fari í sérstök lög um innheimtusamtök, einfaldlega af því að mér finnst þetta ekki endilega eiga heima í höfundalögum. Mér finnst að sjálfsögðu að höfundalög eigi að spilast með. Þetta er náttúrlega ekki annaðhvort/eða, þetta er bolti, þetta er átta. En ég vil að höfundalög fái að snúast um hag höfunda og síðan getum við búið til önnur lög sem snúast um hag innheimtusamtaka eða skyldur innheimtusamtaka og hvernig það á allt saman að ganga fyrir sig. Mér þykir það miklu eðlilegra en að vera að blanda þessu saman enn einu sinni, enn ein réttindin, enn ein leyfin inn í höfundalög, í stað þess að styrkja samningsstöðu höfunda, í stað þessa að styrkja það að þeir megi vera rétthafar að verkum sínum ef enginn gefur þau síðan út þótt þeir afsali sér réttindunum seinna meir. Höfundalög eru galin í núverandi fyrirkomulagi, af því að við erum alltaf að bæta við í stað þess að aðskilja hlutina og gera það vel.