145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

334. mál
[18:19]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið frá hæstv. ráðherra. Mér fannst reyndar ekki koma nógu skýrt fram hver ætti að sjá um eftirlit með því að þessu yrði framfylgt. Verður einhver þar til gerð stofnun sem á að sjá um þetta eins og er t.d. í Bretlandi?

Að sama skapi varðandi ítarlega leit þá geri ég ráð fyrir að þar sé átt við hugtakið „due diligence search“ eins og það heitir upp á ensku í tilskipuninni. Ef mig misminnir ekki þá er ekki alveg eining um það hvað það þýðir, hversu mikil leit þurfi að eiga sér stað áður en við getum talað um ítarlega leit. Hvenær verður leit ítarleg? Þarna er í raun og veru svolítið vafasamt hugtak, að mínu mati, þó að það eigi náttúrlega að halda skrá um þetta og setja í miðlægan gagnagrunn. Ég set í sjálfu sér ekkert út á það. Þetta er náttúrlega Evróputilskipun sem við verðum að innleiða þannig að ég mun bara gera það með glöðu geði.

Hins vegar langar mig til þess að heyra frá ráðherra, burt séð frá því að einhverjar stofnanir úti í löndum þurfi að fá einhverjar skýrslur um það hversu mikið hafi verið leitað, hver sjái um eftirlitið hérna heima.