145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að spinna þráðinn áfram sem hv. þm. Lárus Ástmar Hannesson tók hér upp um fjárhagsafkomu sveitarfélaganna.

Undanfarið hefur rignt yfir okkur þingmenn ályktunum frá einstökum sveitarfélögum eða landshlutasamtökum eða öðrum aðilum á vegum sveitarfélaganna þar sem skorað er á stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi, að endurskoða tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og fara yfir tekjustofna sveitarfélaganna þeim til styrktar.

Sveitarfélögin eru akkúrat þessar vikurnar að ganga frá fjárhagsáætlunum sínum fyrir næsta ár og það blasir við og af því berast fréttir að staðan er mjög þröng og erfið. Því miður er það svo að afkoma A-hluta nær allra stærstu sveitarfélaga í landinu versnaði á síðasta ári. Á sama tíma telur ríkið sig vera það vel í færum sett, undir stjórn núverandi stjórnarflokka, að það geti lækkað tekjur sínar, gefið eftir tekjur, og samt rekið sig með sæmilegri afkomu vegna þess að þenslan í hagkerfinu skilar tilteknum tímabundnum tekjuauka.

Það er með öðrum orðum að skapast á nýjan leik misgengi í afkomu hins opinbera þar sem sveitarfélögin búa greinilega við allt aðra og verri afkomu en ríkið. Nú er þetta allt saman eitt og hið sama. Það er hið opinbera á Íslandi sem stendur undir velferðarsamfélaginu í landinu. Það er þess vegna mál sem varðar okkur öll þegar svona er í pottinn búið hjá sveitarfélögunum. Það er ekki seinna vænna að fá upp einhverja umræðu um þetta hér. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst undarlegt að það hefur ekki heyrst múkk frá ríkisstjórn og stjórnarliðum hér á Alþingi um þetta mál. Geri ég þó ráð fyrir að það séu ekki bara við stjórnarandstæðingar sem fáum áskoranir frá sveitarfélögunum í þessum efnum. Það eru væntanlega við þingmenn allir.

Hver er afstaða meiri hlutans til þess að endurskoða og styrkja afkomu sveitarfélaganna í ljósi þess sem við blasir?


Efnisorð er vísa í ræðuna