145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umtalsefni áform húsnæðismálaráðherra sem boðar á þingmálaskrá að leggja sjö húsnæðisfrumvarp fram á haustþingi. Ekkert hefur frést af þeim frumvörpum. Húsnæðismálaráðherra er að skila auðu rétt einu sinni. Má ég minna á að síðastliðið vor lagði ráðherra fram tvö frumvörp sem ekki kláruðust og dagaði uppi.

Ófremdarástand ríkir á höfuðborgarsvæðinu og líka á fjölmörgum stöðum úti á landi í húsnæðismálum. Það er sannarlega svo að þetta tefur mjög metnaðarfull áform borgarstjórnar Reykjavíkur sem borgarstjóri hefur margoft kynnt um átak Reykjavíkurborgar í að fjölga húsnæðismöguleikum og auka framboð á bæði leiguhúsnæði og minna húsnæði, um það eru sérstaklega mikil og góð áform sem ég er mjög hrifinn af, en Reykjavíkurborg bíður eins og svo margir aðrir, eins og fólkið í landinu, allir bíða eftir stefnu ríkisstjórnarinnar, eftir stefnu ráðherrans. Mínar upplýsingar eru þær að þessi frumvörp séu ekki einu sinni komin til ríkisstjórnar, hvað þá í gegnum þingflokka, hvað þá í gegnum fjármálaráðuneytið til að taka saman kostnaðaráætlun fyrir þessi mál.

Í dag er 18. nóvember eins og allir vita. Það eru ellefu þingdagar eftir, meðal annars til að ræða fjárlög við 2. umr. og 3. umr. og má draga að minnsta kosti þrjá þingdaga frá fyrir það, þannig að þá eru átta þingdagar eftir. Það liggur í augum uppi að félags- og húsnæðismálaráðherra skilar auðu enn einu sinni, gefst upp, kemur ekki með nokkurn skapaðan hlut. Þessi bið eftir frumvörpunum er farin að stórskaða áform eins og til dæmis hin metnaðarfullu áform í þessum málum hjá Reykjavíkurborg.

Hvað segja þingmenn Framsóknarflokksins sérstaklega sem oft hafa komið hér upp undir þessum dagskrárlið, störf þingsins, og talað um málin? Hvar eru húsnæðismálin?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna