145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir rétt um ári vorum við að ræða hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Þar var kynnt menntastefna hægri stjórnarinnar sem felst meðal annars í því að meina þeim sem náð hafa 25 ára aldri að sækja bóknám í opinberum framhaldsskólum en vísa þeim á dýra einkaskóla með ærnum tilkostnaði. Þessu mótmæltum við í Samfylkingunni og hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni harðlega. En það voru hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem samþykktu þessa arfavitlausu menntastefnu sem felur í sér arfavitlausa byggðastefnu.

Í svari hæstv. menntamálaráðherra við spurningum mínum um fjöldann í framhaldsskólunum í október nú í ár, samanborið við sams konar spurningum sem hann svaraði mér í fyrra um fjölda nemenda í október 2014, kemur í ljós að nemendum 25 ára og eldri hefur fækkað um 742 í opinberum framhaldsskólum og þar af um 447 í bóknámi. Í samtölum mínum við stjórnendur framhaldsskóla hafa þeir sagt mér að þessi regla hafi smitast yfir í verknámið, enda eru mun færri verknámsnemendur 25 ára og eldri í framhaldsskólanum líka. Í verkmenntaáföngunum hefur nemendum fækkað um tæplega 300.

Hæstv. menntamálaráðherra renndi Iðnskólanum í Hafnarfirði undir einkaskólann Tækniskólann á þessu ári. Iðnskólinn var með 508 nemendur í október 2014. Nemendum í Tækniskólanum fjölgaði aðeins um 149 og við þurfum að rýna þessar tölur og skoða árangur af slæmri menntastefnu og byggðastefnu hægri stjórnarinnar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna