145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þegar Þorgeir Ljósvetningagoði sætti kristið fólk og ásatrúarmenn sagði hann, með leyfi: ,,En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls …“ Mahatma Gandhi sagði að það væri lögmál kærleikans sem stjórnaði mannkyninu en hann benti einnig á að svokallaðar siðmenntaðar þjóðir hegðuðu sér oft eins og ofbeldið væri grundvöllur samfélagsins.

Þeir skelfilegu atburðir sem áttu sér stað í Beirút og París í síðustu viku komu ekki á óvart. Þannig er nú ástandið í heiminum. En þeir slógu mann þó gersamlega út af laginu. Við höfum lengi fylgst úr fjarlægð með þeim hörmungum sem almenningur í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs hefur búið við, kúgun og ofbeldi af hálfu stjórnvalda og stríðsherra sem hefur svipt fólki öllum lífsgæðum og mjög oft lífinu sjálfu. Fjöldi fólks hefur því lagt líf sitt og barna sinna í hættu við að reyna að komast burt úr því helvíti á jörð sem heimkynni þess hafa breyst í á síðustu áratugum.

Stjórnvöld á Vesturlöndum hafa margt rangt og óréttlátt gert sem hefur kynt undir kúgun og ófriði í þessum heimshluta. Oftast hafa þau metið svartagullið, olíuna, svo miklu meira en saklaust fólk af holdi og rauðu blóði. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því. Enn halda Bandaríkin hlífiskildi yfir stjórnvöldum í Sádi-Arabíu sem bera álíka mikla virðingu fyrir mannréttindum og drápsveitir Daesh. Við berum sömu ábyrgð gagnvart saklausu fólki sem flýr nú þessa kúgun, stríð og hrylling og þjóðir heims báru gagnvart gyðingum og öðrum hópum sem þýskir nasistar ofsóttu. Gleymum því ekki.

Hálfur heimurinn og næstum þúsund ár skildu að þá Þorgeir Ljósvetningagoða og Gandhi en þeir höfðu samt sama viljann til að gera rétt og ráða okkur heilt.

Herra forseti. Höfum í huga ráðleggingar þeirra þegar við ákveðum hvað við segjum og gerum, hvernig við öxlum ábyrgð gagnvart því fólki í heiminum sem verst stendur vegna ofbeldis, kúgunar og ofstækis.


Efnisorð er vísa í ræðuna