145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Áður en þetta ólukkans vonda mál kemur á dagskrá og verður tekið til umræðu enn einu sinni mundi ég mjög gjarnan vilja spyrjast fyrir um það, þar sem ég hyggst taka þátt í umræðunni, hvort hæstv. utanríkisráðherra verði ekki örugglega viðstaddur. Ég mun auðvitað hlýða á það ef svarið er að venjan sé ekki sú að ráðherra sé við og formaður viðkomandi nefndar dekki málið á meðan. Það er út af fyrir sig ágætt en þetta er þannig mál að það hefur tekið á sig svolítið aðra mynd en var í byrjun. Maður sér ekki hver tilgangurinn er annar en meinbægni ráðherrans sem ætlar að sölsa þessa stofnun undir sig inn í ráðuneytið. Ég sé fyrir mér að ef menn muni hætta þar verði ekki ráðið í staðinn heldur verði einhverjum í ráðuneytinu falið starfið. Með öðrum orðum, það er verið að ná sér í pening sem er undir þessum lið, Þróunarsamvinnustofnun, inn í ráðuneytið til að létta á fjárhagsvanda ráðuneytisins (Forseti hringir.) eftir mikla hrakför sem það varð fyrir hjá formanni og varaformanni fjárlaganefndar við fjárlagagerð á síðasta ári. Ég spyrst fyrir um það hvort hæstv. utanríkisráðherra verði hér í dag.