145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat þetta mál, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á áðan, að það er verið að taka stofnun, leggja hana niður og leggja undir viðkomandi ráðherra. Það er þess vegna sem er svo mikilvægt að ráðherra sé viðstaddur og svari spurningum sem koma fram, hvort sem er við 2. eða 3. umr., sem verður vonandi aldrei, en ekki bara í lokin og ef til vill ekki í lokin eins og stundum tíðkast hjá ráðherrum, að koma ekki einu sinni upp við lok umræðu.

Það sem mig langar að vita tengist því sem verið er að beita í frumvarpi sem hér liggur fyrir um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, þar á að fara nýja leið í starfsmannamálum sem er einhver samþykkt ríkisstjórnar frá því í vor, að segja öllum starfsmönnum upp áður og gefa þeim kost á endurráðningu í stað þess að fara að eins og gert hefur verið hingað til og öll stéttarfélög mæla með varðandi þetta tiltekna mál sem ég gerði að umtalsefni, og láta aðilaskiptalögin ráða. (Forseti hringir.) Þarna á að fara nýja leið og mig vantar svör við því frá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að fara þessa óbilgjörnu og í raun ruddalegu leið gagnvart starfsfólkinu.