145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[16:02]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg fráleitt að taka mál til umræðu hér í þinginu án þess að farið hafi verið yfir umsagnir málsins í nefndinni. Jafnvel þótt reikna megi með því að umsagnir séu svipaðar frá því á síðasta þingi þá er það svo að þegar þær koma aftur inn í haust eru nýir þingmenn að setjast í þingnefndina og það þarf að taka málið fyrir. Þingnefndin er ekki eins skipuð þegar málið kemur fyrir núna í haust. Og síðan tekur ráðherrann flokksfund í kjördæminu fram yfir það að mæta hér og standa fyrir máli sínu. Hann er á Ísafirði í dag og fer á Sauðárkrók á morgun. Hann er ekki að nota kjördæmavikuna eins og aðrir þingmenn, nei, hann er að svíkjast um að mæta hér í umræðu í máli sem hann er upphafsmaður að, hleypur í felur heim í kjördæmi til að komast hjá því að standa fyrir máli sínu hér.

Þetta er vanvirðing við þingið, herra forseti.