145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[16:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega ólíðandi fyrir okkur þingmenn í minni hlutanum sem fengum ekki almennilega umfjöllun um málið í nefnd. Það þurfti að rífa það út, það mátti ekki kalla til gesti. Svo þegar málið er hér á dagskrá, þá tekur hæstv. utanríkisráðherra fundi með Framsóknarflokknum á Ísafirði og Sauðárkróki fram yfir það að hann ætlar að leggja niður heila stofnun, stofnun sem hefur ekki verið til vandræða heldur þvert á móti gegnt sínum störfum mjög vel, er vel rómuð og almenn samstaða um þá stofnun. Ég legg til að við frestum þessum fundi á meðan ráðherra sinnir flokknum sínum vítt og breitt um landið og svo þegar hann er tilbúinn, búinn að tala nóg við framsóknarmenn og er tilbúinn til að koma hingað í þingið og ræða þetta eina þingmál sitt, þá höldum við áfram þessum dagskrárlið en ekki fyrr en það, herra forseti.