145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér athugasemdir Gagnsæis, samtaka gegn spillingu. Á vefsíðu samtakanna segir, með leyfi forseta:

„Eftir að utanríkisráðuneytið yfirtekur ÞSSÍ munu öll framlög íslenskra skattgreiðenda til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lenda í „einum potti“ innan ráðuneytisins.“

Telja samtökin að erfiðara verði að fylgjast með því sem gerist innan ráðuneyta en innan undirstofnana þeirra þar sem það er til dæmis fáheyrt að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á ráðuneyti. Samtökin taka einnig fram, með leyfi forseta:

„Almenna reglan í opinberri stjórnsýslu er sú að með því að koma vel skilgreindum og afmörkuðum verkefnum fyrir í undirstofnunum utan ráðuneytis er auðveldara að fylgjast með því á hvern hátt fjármunum þar er varið. Það er ráðstöfun í þágu gagnsæis, sýnileika og almannahagsmuna.“

Hvað finnst þingmanninum um þetta?