145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að halda aðeins áfram með það sem samtökin settu á heimasíðuna sína. Þau taka einnig fram, með leyfi forseta:

„Aðalráðgjafi ráðherrans í málefnum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og þeim áformum ráðherrans að leggja niður ÞSSÍ er einn af æðstu yfirmönnum innan Rauða kross Íslands.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þarna sé um hagsmunaárekstur að ræða, sérstaklega í ljósi þess að þessi ráðgjafi ráðherrans talar því máli að íslensk stjórnvöld ættu að styðja við fyrirtæki í orkugeiranum sem vilja koma með jarðhitaverkefni inn í þróunarlönd þrátt fyrir að slíkt teljist ekki til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.