145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því af hverju það væri ákjósanlegt að hafa hæstv. ráðherra í umræðunni með okkur. Það eru einmitt svona stórar grundvallarspurningar sem ég tel að hafi ekki komið nógu góð svör við.

Ég er sammála hv. þingmanni að það er mjög ólíklegt að ráðuneyti fari að biðja um aukna fjármuni inn í slíkan rekstur og við það bætist svo auðvitað að löndin sem þurfa á þessum fjármunum að halda eru langt í burtu og ekki í neinni stöðu til að fara að pressa á um sín mál. Ég tel þess vegna að við verðum alltaf að líta þannig á það að þróunarsamvinna við fátækustu ríkin sé langhlaup og þess vegna megi hún á engan hátt vera undir einhvers konar staðbundnum pólitískum sviptivindum á Íslandi komin. Ég vil að lokum spyrja þingmanninn aftur: Erum við ekki á kolrangri leið með þetta mál, að taka það yfir í þennan farveg?