145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt eins og síðasti ræðumaður og allmargir þingmenn í umræðum um fundarstjórn forseta að harma það að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Ég vil láta það álit mitt í ljós að það sé ótækt að 2. umr. um málið, aðalefnisumræðunni, ljúki fyrr en hæstv. ráðherra hefur komið hingað og við átt þess kost að leggja fyrir hann spurningar og taka við hann rökræðu um málið. Hvenær sem umræðunni lýkur í dag, sem hefði auðvitað verið eðlilegast og full rök fyrir að fresta, þá er það eindregin ósk mín til forseta að málið komi ekki aftur á dagskrá fyrr en að tryggt er að ferðalög hæstv. utanríkisráðherra leyfi honum að vera hér í þingsal.

Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnst það sérkennileg forgangsröðun hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. utanríkisráðherra í þessu tilviki að vera að eyða orku í málið í ljósi þess að hér vantar augljóslega eiginlega öll haldbær rök. Það er búið að lýsa mikið eftir þeim. Þau er ekki að finna í greinargerð með frumvarpinu því að ég hef lesið hana nokkuð vel. Lítið fór fyrir þeim í framsöguræðu ráðherrans og aftur í framsöguræðu meiri hluta utanríkismálanefndar og nefndaráliti. Þá eru menn í nokkrum vanda staddir. Af hverju er verið að ráðast í þessa breytingu ef fyrir því eru ekki færð sæmilega sannfærandi og trúverðug rök? Er það vegna þess að hér sé um forneskjulegt fyrirkomulag að ræða sem hafi einhvern veginn dagað uppi í gegnum tímann? Nei, það er ekki alveg þannig. Við erum einmitt að tala um mjög nýlega heildstæða löggjöf sem mikil vinna var lögð í að móta og kostaði sitt, ef ég man rétt, með utanaðkomandi ráðgjöfum og hvað eina og er frá að ég held 2008, þar sem umgjörðin utan um þessi mál var styrkt að menn töldu og talsvert lagt í það á sínum tíma. Þar var enginn efi uppi um að Þróunarsamvinnustofnun skyldi áfram vera fagleg, sjálfstæð, óháð stofnun og fara með sín verkefni.

Þetta er reyndar rakið lauslega í greinargerðinni og það er svolítið snautlegt þegar það er skoðað og farið yfir löggjöfina frá 2008 sem byggði á þeim grunni eins og þar segir, að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi annast tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum Íslands, í umboði utanríkisráðherra. Svo er að vísu talað um að margvíslegar breytingar hafi orðið síðan. En hver er fyrst talin upp? Þar megi nefna stofnun þróunarsamvinnuskrifstofu í ráðuneytinu. Bíddu, eru það orðin sérstök rök að ráðuneytið hefur skýrt eitthvað upp á nýtt og fært verkefni til innan sinna vébanda? Eitthvert starfsfólk hefur væntanlega sinnt þessu áður í ráðuneytinu, og þó að þar hafi orðið skipulagsbreytingar og menn hafi sett á það nýtt nafn, eru það sjálfstæð rök fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun eigi þá að leggjast niður? Nei, það finnst mér ekki. Síðan er nefnt aukið samstarf og samhæfingu ráðuneytis og ÞSSÍ. Hvað er átt við með því?

Síðan kemur mjög athyglisverð setning í greinargerðinni, að í aðdraganda aðildar Íslands að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, DAC-nefndinni — sem við vorum oft búin að ræða um á umliðnum árum að við þyrftum að gerast fullgildir aðilar að. Mér fannst það pínlegt, man ég, þegar ég var að heimsækja OECD einhverjum árum þarna á undan, bæði sem fulltrúi Alþingis og líka sem fulltrúi í Norðurlandaráði, þá átti Ísland ekki aðild að þeirri nefnd og við vorum ekki með í þeirri skýrslugjöf og því eftirliti og þeirri samræmingu sem þar fer fram. Nú var ráðin bót á því. En í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Í aðdraganda aðildar Íslands að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), DAC, árið 2013 vann fagteymi á vegum nefndarinnar sérstaka rýni á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands sem sýndi fram á burði Íslands til aðildar. Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar og kom þar fram að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni.“

Hvert er þá vandamálið? Að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni, samkvæmt úttekt þessara sérfróðu aðila? Þetta er fjögurra ára gömul úttekt á því fyrirkomulagi sem enn er við lýði og nú á að fara að kollvarpa. Þá þarf einhver ný efnisleg gild rök til þess að sannfæra menn um að þetta sé rétt breyting. Ég endurtek spurninguna, herra forseti: Hvað er að? Bendi mér einhver á það.

Margir hafa hér einmitt talað um að Þróunarsamvinnustofnun hafi getið sér gott orð. Ég hef fylgst nokkuð vel með framvindu málaflokksins í yfir 30 ár af því að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á honum. Ég hef að langstærstum hluta verið mjög ánægður með áherslurnar og hvernig þær hafa verið að mótast og þroskast, þar á meðal beinlínis stefnu stjórnvalda um það hvernig Ísland hefur þrátt fyrir allt þróað aðferðafræði sína í þessum efnum. Þar á Þróunarsamvinnustofnun auðvitað mestan heiðurinn og hefur leikið stærsta hlutverkið.

Ég veit til dæmis að þær áherslur á að hverfa kannski frá því að við Íslendingar ættum fyrst og fremst að byggja á sérþekkingu okkar á sviði sjávarútvegs og jarðhita, svo maður tali ekki um eldri og frumstæðari hugmyndir, að í reynd ættum við að nota þróunarsamvinnu til að ryðja okkur brautina einhvern veginn til verkefna á erlendri grund á þessu sviði. Ég get alveg viðurkennt að ég var bernskur eins og fleiri og haldinn af þeirri hugsun svona í árdaga, en ég hef þroskast í burtu frá því, og nú sé ég auðvitað hversu frumstætt það væri og í raun og veru ófaglegt. Við höfum lagt á síðustu árum stóraukna áherslu á málefni kvenna, málefni barna, á undirstöðuhluti eins og menntun, heilsugæslu, jafnréttismál, aðgang að hreinu drykkjarvatni og annað í þeim dúr. Þetta eru allt áherslur sem mér líka vel og hafa líkað.

Eina óánægjuefnið er hversu lítið við höfum treyst okkur til í gegnum tíðina, þetta ríka land, að leggja af mörkum. Það hefur alltaf verið pínlegt og er enn og sérstaklega pínlegt núna þegar við erum aftur að styrkjast efnahagslega, að menn skuli þá ekki sæta færis og ná upp þessum hlutföllum og þessum framlögum.

Árangurinn af þessu starfi er góður og það má enginn skilja mig svo að ég sé að gera lítið úr því sem var ágætlega unnið, t.d. á sviði jarðhitamálanna og fiskveiða í Namibíu og þess vegna víðar hvað varðar jarðhitann. En ég held að við höfum verið að færa áherslur okkar alveg í rétta átt, nær og inn í nærsamfélögin þar sem okkar fólk er að störfum og heimaráðið starfsfólk og að vinna með samfélögum neðan frá með konum og börnum og leggja grunn að undirstöðunum í samfélögunum. Það er gott og vel að hjálpa upp á þróun í atvinnumálum eða orkunýtingu og annað því um líkt, en í reynd er það það sem þessi samfélög hafa langmesta þörf fyrir, þ.e. stuðningurinn við uppbygginguna, innviðina, gera lífið bærilegra í nærsamfélögunum, að menn þurfi ekki að ganga í klukkutíma eftir vatni með leirker á höfðinu kvölds og morgna og þar fram eftir götunum. Þar getum við þótt lítil séum vissulega skipt máli.

Ég hef verið áhugamaður um það líka að Norðurlöndin ykju samstarf sitt á þessu sviði, og flutti ég reyndar um það tillögu í Norðurlandaráði fyrir einu og hálfu ári eða svo, sem ég held að ég hafi fengið samþykkta, ég verð nú að játa að ég veit ekki alveg hvar hún er stödd í kerfinu. En hún fékk góðar undirtektir og ég þykist fara rétt með að hún hafi verið send út til umsagnar eftir umfjöllun í forsætisnefnd, þar sem er verið að hvetja stjórnvöld á Norðurlöndunum til að skoða aukið samstarf, efla samvinnu Norðurlandanna sem heildar á þessu sviði. Þar er alveg sérstaklega verið að horfa til hinna faglegu stofnana. Þær eru mjög burðugar og Norðurlöndin standa framarlega mínus kannski Ísland og að einhverju leyti Finnland. Þá hafa hin Norðurlöndin þrjú öll uppfyllt markmiðin um að verja 0,7% af vergum þjóðartekjum og sum reyndar gott betur í þróunarsamvinnu. Stofnanir eins og SIDA og DANIDA eru mjög öflugar. Ég hef kynnst starfi þeirra til dæmis í gegnum það að með tveggja, þriggja ára millibili hafa verið settar saman sendinefndir þingmanna frá Norðurlöndunum, kannski tveir frá hverju landi, og menn hafa farið og heimsótt svæði þar sem verið er að vinna með þróunarsamvinnustofnununum og með stofnunum Sameinuðu þjóðanna á viðkomandi svæði, ákaflega lærdómsríkar ferðir.

Ég átti þess kost að fara í eina slíka til Níkaragva með núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, sem ferðafélaga. Það var mjög lærdómsrík ferð. Valið var að fara til Níkaragva vegna hörmunga sem þar höfðu gengið yfir, mikill fellibylur hafði valdið skelfilegri eyðileggingu á austurströnd landsins þar sem var vanþróað svæði. Og hverjir voru nú þar, höfðu mætt fyrstir og voru að gera mest? Jú, það voru stóru, sterku norrænu þróunarsamvinnustofnanirnar, einkum Danirnir og Svíarnir sem voru að koma á vegasambandi, voru að laga skólana sem höfðu hrunið. Svo dæmi sé tekið úr þeirri ferð þá áttum við fund í þorpi úti á austurströndinni í þaklausum skóla. Það var eina skjólið sem var að finna á staðnum, það voru leifarnar af skólanum þar sem veggirnir stóðu að mestu leyti eftir uppi. Heimamenn spurðu hvort það væri nokkur leið að útvega þeim öngla og færi. Manni varð hugsað til Íslands fyrir 200 árum síðan.

Svona er neyðin víða þar sem verið er að takast á við þessa hluti. Ég held að aukið samstarf Norðurlandanna gæti skipt þarna máli. Ég tel að það eigi að vera á faglegum grunni. Þá væri allri pólitík ýtt til hliðar, og skiptir ekki máli þó að menn kunni að hafa einhverjar mismunandi áherslur uppi gagnvart alþjóðamálum líðandi stundar, ef svo væri, milli Norðurlandanna.

Ég hefði reyndar líka viljað sjá að Norræni þróunarbankinn yrði endurreistur. Þó að það sé gott og blessað að honum var í reynd breytt yfir í umhverfisverkefnasjóð, þá lifir hann á þeim tekjum sem hann hefur af eldri útlánum og upphaflegum stofnframlögum. Ég sakna þess að Norðurlöndin skyldu slá það af að vera líka með eiginlegan þróunarbanka á sínum snærum, ég hefði talið það betra.

Þessa hluti og marga fleiri væri gaman að ræða ef við værum bara ekkert að tala um þetta frumvarp, heldur að ræða um hvernig við getum gert betur í þessum efnum, hvaða faglegar áherslur við eigum að móta og hvort við getum unnið nánar með öðrum löndum eins og Norðurlöndunum o.s.frv. Í staðinn er verið að eyða tíma og orku í að ræða þetta frumvarp sem er ekki framfaraskref á nokkurn hátt. Það er sorglegt að eyða tímanum í það.

Ef við eigum að reyna að lesa í einhver rök sem hér eru fram færð fyrir málinu þá er það þetta með að samþætta og samhæfa starfið á einum stað innan veggja ráðuneytisins. En hvað er verið að segja með því? Við skulum þá líka gá að okkur í þeim efnum. Er verið að segja að það eigi með einhverjum hætti að samþætta pólitískar áherslur Íslands í utanríkismálum og fagleg sjónarmið í þróunarsamvinnu? Er verið að segja það? Viljum við það þá? Ekki ég. Þá vísa ég til bernsku minnar þegar ég var kannski svolítið veill fyrir þeim sjónarmiðum að Ísland gæti með því að leggja áherslu á jarðhitanýtingu og stjórn fiskveiða rutt sér brautina inn á markaði í fjarlægum löndum gegnum slíkt, en það er óleyfileg tenging í umræðu um þessi mál í dag. Það á akkúrat ekki að vera þannig. Það skiptir alveg gríðarlegu máli að þegar farið er að vinna með löndum og svæðum í erfiðleikum, oft við mjög viðkvæmar og vandasamar aðstæður, þá sé það hafið yfir allan grun að mönnum gangi ekkert annað til en að styðja viðkomandi svæði og íbúa þess til sjálfsbjargar, það séu engin önnur sjónarmið á ferðinni en fagleg sjónarmið á þeim grunni, það sé engin pólitík í málinu.

Þess vegna held ég að málið falli um sjálft sig ef reynt er að finna út þessar einu röksemdir sem að nafninu til eru hér færðar fram. Mér finnst hið gagnstæða einmitt vera kostur að vera með sjálfstæða, faglega, óháða fagstofnun sem fer með þetta hlutverk.

Lítum þá á það hvort eitthvert eiginlegt hagræði sé líklegt til að verða af þessu annað en pólitísk samþætting. Hver ætli sé dómbærastur á það? Jú, það gæti verið skrifstofa um opinber fjármál í fjármálaráðuneytinu. Það er hennar göfuga hlutverk að gefa umsögn um frumvörp. Þar er ákaflega áhugaverð lesning, satt best að segja, ég hef nú séð margar umsagnir af því tagi. Þar er farið yfir það í 2. mgr. að níu starfsmenn séu á þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins og það séu einmitt líka níu starfsmenn á aðalskrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar í Reykjavík. Restin er svo sex menn á umdæmisskrifstofum og staðarráðið fólk. Svo segir, með leyfi forseta, skrifstofa opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu:

„Ekki er reiknað með að sameiningin leiði til breytinga á fjölda starfsfólks og ekki er heldur reiknað með breytingum í húsnæðismálum, en þróunarsamvinnuskrifstofa ráðuneytisins og ÞSSÍ starfa nú þegar náið saman og hafa aðsetur í sama húsnæði. Ekki er því gert ráð fyrir því að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á rekstrarkostnað málaflokksins fyrst um sinn. Engu að síður er gert ráð fyrir því að með sameiningunni megi draga úr vissri óhagkvæmni og tvíverknaði sem þegar fram í sækir geti leitt til aukinnar hagkvæmni í stjórnun og rekstri.“

Svona varlega hef ég aldrei heyrt þetta orðað áður hjá þeim vinum mínum sem um véla. Gefið er í skyn að það sé fjarlægur möguleiki að það gæti orðið eitthvert hagræði að þessu einhvern tímann inni í framtíðinni. Annað og meira er ekki sagt. Ekki sækja menn sterk rök fyrir málinu í þá átt. Úr því að þetta er svona, að þeir eru þarna undir sama þaki og vinna ágætlega saman nú þegar, þá spyr ég aftur: Hvert er vandamálið? Reyndar mætti snúa spurningunni við og spyrja: Bíddu, væri þá bara ekki handhægt að færa meiri verkefni til Þróunarsamvinnustofnunar, að létta byrðum af ráðuneytinu svo það geti einbeitt sér að hinni eiginlegu utanríkisstefnu og að Þróunarsamvinnustofnun tæki aftur á móti þennan málaflokk í meira mæli yfir og sæi um hann, jafnvel þátttökuna í alþjóðasamstarfi og öll tvíhliða verkefni? Því ekki það? Þannig að í reynd má snúa þeim svokölluðu rökum, sem eiginlega eru engin, meira og minna öllum saman við og segja að þau gætu alveg eins og kannski frekar mælt með þróun í algerlega gagnstæða átt, að efla hina faglegu og sjálfstæðu stofnun.

Að lokum, herra forseti, finnst mér ekki annað hægt en að vekja athygli á því hversu dapurlegt það er að við séum að eyða tíma Alþingis og okkar allra í þetta í staðinn fyrir að vera að ræða, og hæstv. ráðherrann líka, hvernig við getum gert betur á þessu sviði. Hæstv. utanríkisráðherra ætti auðvitað sóma síns vegna að vera að eyða orku sinni og tíma í að berjast fyrir auknum framlögum til þróunarsamvinnu í staðinn fyrir að láta bjóða sér það að ríkisstjórnin ætli ekki einu sinni að standa við sín eigin metnaðarlausu áform eins og þau birtust okkur í upphafi kjörtímabilsins. Nei, nú er niðurskurðurinn enn þá meiri. Það er ekki staðið einu sinni við þau áform um aukningu sem ríkisstjórnin kynnti fyrst, á tímum þegar menn stæra sig af afgangi á ríkissjóði og miklum hagvexti. Hvenær ef ekki nú á að reyna að fara að tosa þessi hlutföll upp? Hvenær ef ekki nú á að reyna að fara að auka aftur framlög Íslands til þróunarsamvinnu, ef við ætlum einhvern tímann að geta borið höfuðið sæmilega hátt í þeim efnum? Er ástand heimsmála þannig að ekki sé ástæða til? Sýnist mönnum það þegar þeir líta í kringum sig? Ekki sýnist mér það, því miður.

Ófriður og loftslagsbreytingar og margt fleira teikna það upp að fleira fólk verði á flótta, fleira fólk verði húsnæðislaust, að fleira fólk búi jafnvel við hungursneyð en gert hefur áratugum saman. Þörfin er því æpandi og Ísland á að gera betur í þessum efnum. Það á að vera hluti af metnaði okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, sem er orðin vel megandi og hefur risið úr öskustó fátæktar á einum 100, 120 árum og frá því að vera þiggjendur í þessu efnum í það að vera núna vel aflögufær, að sýna það í verki að þannig viljum við standa að málum.

Frumvarp þetta hefur ekkert með það að gera, ekki neitt. Ef eitthvað er er það heldur til trafala. Til dæmis það að það er þó alltaf gott að hafa faglega óháða stofnun sem sjálf getur reitt fram röksemdir fyrir því að fá aukið fjármagn til verkefna. Halda menn að það muni koma úr ráðuneyti frá ráðherra sem er búinn að gera málamiðlanir inn í (Forseti hringir.) ríkisstjórn (Gripið fram í.) og búinn að kyngja því að hann fái ekki meiri peninga? (Forseti hringir.) Auðvitað ekki.