145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu. Hann sagði í sínu máli að hann vildi fremur óska þess að vera hér að ræða stefnuna, hvaða stefnu við eigum að taka í þróunarsamvinnu, hvaða verkefnum við ættum að sinna og ræða hinar stóru línur en að vera í umræðu um stofnanastrúktúr eins og kallað er. Ég vil endilega, virðulegi forseti, taka undir orð hv. þingmanns í þeim efnum. Hann minntist líka á það sem hann kallaði og ég tek undir með honum einnig í því, hlægileg rök, virðulegi forseti, að vegna þess að það hefur verið farið í einhverja hagræðingu eða breytingar í ráðuneytinu og stofnuð þar skrifstofa sem heitir þróunarskrifstofa, þá ætti að taka hina faglegu stofnun inn í ráðuneytið. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að þetta eru ekkert nema hlægileg rök.

Mig langar að bera undir þingmanninn þá skoðun mína að það sé miklu erfiðara að stíga þetta skref til baka. Segjum að allt væri inni í ráðuneytinu og það yrði sett á laggirnar stofnun og síðan yrði hún lögð af, þá er þessi stofnun í umheiminum, ein af þeim sem við notum, Þróunarsamvinnustofnun, horfin. Verður ekki erfitt að vinda ofan af því óheillaskrefi í framtíðinni?