145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu þingmannsins áðan og mér fannst það vel orðað hjá honum að hann kallaði það svolítið frumstætt viðhorf til þróunarsamvinnu að menn væru að reyna að ryðja einhverjum viðskiptum braut, að land sem legði eitthvað til þróunarsamvinnu væri í leiðinni að reyna að ryðja sér og sínum hagsmunum einhverja braut í þeirri vinnu. Hv. þingmaður kallaði það frumstætt viðhorf til þróunarsamvinnu og ég vil taka undir það.

Það er vissulega um grundvallaratriði að ræða hvernig við komum fram gagnvart öðrum þjóðum í þessu veigamikla starfi. Þá segi ég að það hefur undrað mig í þessum umræðum þar sem margir hafa tekið til máls að hér hafa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ekki komið. Þeir hafa ekki látið sjá sig við þessa umræðu. — Virðulegi forseti. Nú á ég allt í einu tvær mínútur?

(Forseti (ÞorS): Forseti tekur fram að klukkan er að stríða okkur, en forseti hefur vökul augu á tímanum og hv. þingmaður hefur enn nokkrar sekúndur til ráðstöfunar.)

Já, það er ágætt. Takk fyrir, virðulegi forseti.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann af því að hann hefur lengri þingreynslu en ég: Er það algengt að í svo stórum málum sem þessum að stjórnarþingmenn sitji hjá og segi ekki bofs og hafi enga skoðun?