145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er sorglegt að þingið skuli þurfa að eyða tíma sínum í að ræða jafn vitlaust og heimskulegt frumvarp og það sem nú er lagt fyrir það. Hann getur þó alla vega huggað sig við það að það hefur ekki orðið hlutskipti hæstv. utanríkisráðherra sem hefur kosið að fara heldur á fjarlægt landshorn en þurfa að standa fyrir máli sínu hér. Sömuleiðis verður að segja hv. formanni utanríkismálanefndar það til hróss að hún hefur líka talið þarfara lungann úr umræðunni að eyða tíma sínum við annað en vera viðstödd umræðuna og ekki álasa ég henni fyrir það.

Hv. þingmaður velti því upp í ræðu sinni hvort menn hefðu ekki frekar átt að fara í að skoða það að fara þveröfuga leið við það sem hér er lagt til, þ.e. að taka öll þau mál sem heyra til þróunarsamvinnu frá ráðuneytinu og flytja til stofnunarinnar. Það er skynsamleg hugmynd hjá hv. þingmanni. Það vill svo til, eins og kemur fram í DAC-skýrslunni, að þróunarsamvinnunefndin bendir á þá sérstöðu íslenska utanríkisráðuneytisins að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að sérstök stofnun eigi lögum samkvæmt að fara með tvíhliða verkefnið, sé 48% af fjármagninu samt varið af utanríkisráðuneytinu og fari í gegnum það. Það má velta því fyrir sér hvort utanríkisráðuneytið starfi í reynd samkvæmt bókstaf laganna. Þetta hefur verið skoðað af engum öðrum en þeim manni sem löngum var leiðtogi lífs hv. formanns utanríkismálanefndar, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni. Hann komst að þeirri niðurstöðu, sá vísi maður sem margt gott lét af sér leiða þótt umdeildur sé, (Forseti hringir.) að þetta ætti að gera eftir að hafa falið núverandi hæstv. menntamálaráðherra að skoða málið.

Svo ég spyr nú (Forseti hringir.) hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvort klígjan sem augljóslega setur mark sitt á þingmenn Sjálfstæðisflokksins vegna málsins kunni að stafa af því (Forseti hringir.) að þeir vita að þeir eru að ganga hér til vonds verks og gegn fyrri stefnu eins af stólpum síns flokks.