145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að það auki nú ekki áhuga sjálfstæðismanna á því að brjóta sig í stykki fyrir þetta mál að fyrrum foringi þeirra, kannski enn, á þessa sögu í málinu. Hin efnislega niðurstaða er að sjálfsögðu jafn gild og góð og styrkist bara því að betur sjá augu en auga þar sem fleiri hafa komist að svipuðum niðurstöðum. Það hefði verið gaman að sjá þessum tveim leiðum stillt upp og bera þær saman, annars vegar að fara með þetta allt yfir í ráðuneytið og hins vegar að gera skilin hreinni með því að færa þessi verkefni þangað sem þau eiga hvort sem er að vera samkvæmt skipulaginu, yfir í Þróunarsamvinnustofnun, og skoða það.

Auðvitað finnst mér sorglegt að við séum að eyða tíma okkar í þetta mál, í þessa vitleysu, bæði þingsins vegna og þjóðarinnar, en mér finnst langverst að við séum að henda þessum málaflokki í óvissu, stofnuninni, starfsmönnunum og málaflokknum sem slíkum, og að það skuli vera reistur ágreiningur um svo viðkvæmt málasvið. Gegnum tíðina var alltaf reynt að passa upp á að það væri þó eins mikil þverpólitísk samstaða á bak við þennan málaflokk og mögulegt var. Ég þekki það mjög vel vegna þess að ég gekk í gegnum það oft á umliðnum árum að menn ræddu og veltu fyrir sér: Þarf að vera stjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun eða á að vera eitthvert samráð um málið? Niðurstaðan varð alltaf sú sama: Já, það á að vera þverpólitísk aðkoma allra flokka að þessu máli vegna þess að það er gott fyrir málaflokkinn, það bakkar hann upp, hann þarf að eiga stuðning alls staðar. Þess vegna var það alltaf niðurstaðan þó að menn veltu því fyrir sér hvort það væri endilega ástæða til þess eða þörf fyrir það á löngu liðnum árum að hafa stjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun en þannig skyldi það vera (Forseti hringir.) í þessu skyni. Þetta er brothætt. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki gera málaflokknum gott með því að keyra ágreining upp um málið (Forseti hringir.) eins og hér er.